Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, verður forsætisráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokks, verður fjármálaráðherra. Innviðaráðuneytið, þar sem hann sat áður, kemur í hlut Vinstri grænna.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir verður utanríkisráðherra, eftir stutta viðkomu í fjármálaráðuneytinu.
Þetta kom fram í máli Bjarna á blaðamannafundi formanna ríkisstjórnarflokkanna þriggja í Hörpu rétt í þessu.
Bjarni sagði það leiða af eðli máls að endurskipa þyrfti í ráðherrastóla við þessar aðstæður, eftir að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefði farið yfir á annan vettvang.
Flokkarnir hefðu átt góðar viðræður síðustu daga.
„Og við höfum komist að niðurstöðu.“
Sigurður Ingi sagði að flokkunum hefði fundist mikilvægt að halda ríkisstjórninni áfram. Nefndi hann það markmið að ná niður þeirri verðbólgu sem verið hefur í efnahagslífinu að undanförnu, og einnig verkefni í tengslum við jarðhræringar á Reykjanesskaga og rýmingu Grindavíkur.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, formaður Vinstri grænna, tók undir með starfsbræðrum sínum og sagði stór og þýðingarmikil mál fram undan á þinginu.
Endurskoðun á örorkulífeyriskerfinu og útlendingamál voru á meðal þeirra atriða sem hann nefndi. Þá talaði hann einnig um almenningssamgöngur og borgarlínuna, sem mikilvægt væri að klára.
Þá kom að lokum fram í máli Bjarna að skipst verði á lyklum og ráðuneytum á morgun.