Bjarni Benediktsson, nýr forsætisráðherra, segir endurnýjun á örorkukerfinu, orkuöflun og útlendingamál vera stór mál sem hugmyndin er að taka fyrir í þinginu og því leggist framhaldið vel í hann og að hann sér bjartsýnn á að hægt verði að koma þessum stóru málum í gegn.
„Ég er spenntur og þakklátur fyrir það tækifæri að vera í ríkisstjórn til þess að taka á þessum málum,“ segir Bjarni í samtali við mbl.is
Hann segir engar grundvallar stefnubreytingar í farvatninu við brotthvarf Katrínar Jakobsdóttur.
Spurður hvort það muni hugsanlega valda núningi að Katrín sé farin úr stjórn VG og Guðmundur Ingi Guðbrandsson hafi tekið við keflinu þá segir Bjarni að tíminn verði að leiða það í ljós.
„Katrín hefur verið öflugur stjórnmálamaður sem hefur lagt mikið af mörkum til að miðla málum í ríkisstjórninni. Nú verður tíminn að leiða í ljós hvernig fólk upplifir þær breytingar þegar hún hverfur á braut. Við getum öll sagt að við söknum hennar."
Aðspurður segir Bjarni ekki búast við öðru en að kosningar fari fram í september á næsta ári þegar kjörtímabilinu lýkur.
Í viðtali við RÚV segir Bjarni að honum hafi þótt eðlileg krafa að Sjálfstæðismenn hafi gert kröfu á forsætisráðuneytið sem stærsti flokkur landsins. Menn hafi gefið það eftir á sínum tíma til miðla málum. Honum hafi fundist sjálfsagt við þessar aðstæður að sú virðing væri borin að veita Sjálfstæðismönnum embættið.