Þrír kvenkyns læknar, sem voru ráðnir árið 2019 á Barnaspítalann, grófu upp að fimm karlkyns barnalæknar, sem ráðnir voru á eftir þeim, hefðu fengið hærri laun en þær.
Fordæmalaus leiðrétting, segir formaður Félags sjúkrahúslækna. Spítalinn segir kerfisbundinn kynbundinn launamun ekki til, að því er kemur fram í nýjasta tölublaði Læknablaðsins.
„Gögn sýna svart á hvítu að það er sannarlega óútskýrður launamunur í læknastétt og þar hallar oftar á konur,“ er haft eftirTheódór Skúla Sigurðssyni, formanns Félags sjúkrahúslækna.
Fram kemur, að þrír barnalæknar, sem eru allar konur, hafi fengið laun sín leiðrétt afturvirkt eftir að fimm barnalæknar, karlar, hafi verið ráðnir inn á betri kjörum.
Theódór Skúli segir félagið hafa skoðað mál kvenlæknanna á Barnaspítalanum. „Það er fordæmalaust að Landspítali hafi skoðað einstaka mál eftir ábendingar og á endanum leiðrétt launamisrétti af þessu tagi afturvirkt að eigin frumkvæði.“
Helga Elídóttir og Jóhanna Guðrún Pálmadóttir rekja málið í viðtali í Læknablaðinu og Landspítalinn fer einnig yfir sína hlið. Minnisblað frá 2016 um greiðslur fyrir starfsbundna þætti var ekki notað á Barnaspítalanum við ráðningu kvennanna en það var gert hjá körlunum. Þá höfðu orðið mannaskipti í brúnni, að því er segir í umfjöllun blaðsins.
„Til að gæta samræmis innan sviðsins var samþykkt að leiðrétta laun þeirra,“ segir í svörum spítalans. Helga bendir þar á að jafnlaunavottunin frá 2020 hafi ekki gripið muninn. Theódór gagnrýnir einnig vottunina.
„Jafnlaunavottun Landspítala, eins og hún horfir við mér, var sorgarsaga frá upphafi. Ekki stendur steinn yfir steini,“ segir hann. „Samt voru skýr dæmi um launamismun til staðar.“ Hann furðar sig á að launasamningar við lækna séu í höndum hvers og eins yfirmanns án þess að rauð ljós kvikni hjá yfirstjórninni þegar eitthvað fari aflaga, segir enn fremur í umfjöllun Læknablaðsins.