Þingflokkar framsóknarmanna og Vinstri grænna munu funda í þingflokksherbergi Framsóknar í Alþingishúsinu fyrir hádegi í dag. Til umræðu er væntanlega áframhaldandi stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar og Vinstri grænna.
Ingibjörg Ólöf Isaksen, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, á ekki von á að fundurinn muni standa lengur en í klukkutíma en hann hefst klukkan 10.30. Er það vegna þess að klukkan 11:30 á Ingibjörg fund með forseta þingsins.
Þingflokkur Vinstri grænna kemur saman til fundar ásamt framkvæmdastjóra þingflokksins klukkan 11.
Ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs kann að verða tilkynnt í dag og ætti að geta tekið við völdum ekki síðar en á morgun, að sögn heimildarmanna Morgunblaðsins.