Hermann Nökkvi Gunnarsson
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fráfarandi fjármála- og efnahagsráðherra og verðandi utanríkisráðherra, segist hlakka til þess sinna utanríkismálunum að nýju. Hún segist bjartsýn á að ríkisstjórnarflokkarnir muni klára kjörtímabilið.
Ríkisráðsfundur fór fram á Bessastöðum í kvöld og tekur Þórdís aftur við utanríkisráðuneytinu.
Hvernig lýst þér á að vera komin aftur í utanríkisráðuneytið?
„Ég var auðvitað rétt að byrja í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og gerði ráð fyrir því að klára kjörtímabilið, en svona er pólitíkin. Ég er fara inn í ráðuneyti sem ég þekki mjög vel og hlakka til að koma aftur í.
Við erum að lifa víðsjárverðustu tíma sem við höfum séð í marga áratugi og það að leggja höfuðáherslu á öryggis- og varnarmál og þróunarsamvinnu og viðskiptafrelsi – mér líður vel í þeim málaflokkum. Síðan snýst þetta um að mæta til leiks og vinna sína vinnu,“ segir Þórdís.
Ertu bjartsýn á að þið klárið kjörtímabilið
„Já ég er það, mér finnst ekki þýða neitt annað. Við erum kosin til fjögurra ára og við höfum þennan sterka meirihluta.“
Hvenær varð þér ljóst að þú myndir skipta um ráðuneyti?
„Þetta hafa verið svo langir og furðulegir dagar að ég held ég geti ekki svarað því með nákvæmri tímasetningu, enda voru þetta mjög mörg samtöl. Ég gat þó gert ráð fyrir því hvert þetta stefndi,“ segir hún.