Íhugar vantrauststillögu á Bjarna eða ríkisstjórnina

Inga segir að ný ríkisstjórn hugsi ekki um velferð fólksins …
Inga segir að ný ríkisstjórn hugsi ekki um velferð fólksins í landinu og kallar eftir alþingiskosningum. mbl.is/Árni Sæberg

Inga Sæland kveðst núna íhuga að leggja fram vantrauststillögu á ríkisstjórnin í heild sinni eða Bjarna Benediktsson, verðandi forsætisráðherra.

„Þetta er sama gamla vínið á sömu gömlu belgjunum,“ segir hún í samtali við mbl.is, aðspurð um nýju ríkisstjórnina.

Inga segir þessa ríkisstjórn ekki hugsa um velferð fólksins í landinu og kallar því eftir að kosið verði til Alþingis. 

„Það eru 2/3 þjóðarinnar sem er að óska eftir því að fá að nýta lýðræðið sitt og kjósa hér nýja valdhafa, það er ekki flóknara en það,“ segir hún og vísar í skoðanakannanir.

Hún segist þó sýna skilning á því að ekki sé blásið til kosninga strax í ljósi forsetakosninganna. Að hennar mati væri tilvalið að kjósa í haust.

Mun draga tillöguna til baka

Inga lagði fram vantrauststillögu á hendur Svandísar Svavarsdóttur, fráfarandi matvælaráðherra, í gær en mun hún núna draga tillöguna til baka þar sem Svandís er nú á leið í innviðaráðuneytið.

„Stjórnskipulega get ég ekki elt hana með hana [tillöguna] þangað,“ segir Inga.

Segir hefð vera að skapast sem henni hugnast ekki

Hún segir það koma til greina að leggja fram vantrauststillögu á ríkisstjórnina og segir það vera til umræðu meðal einhverra þingmanna.

„Eða kannski bara Bjarna – hvað segið þið um það? Hann er búinn að vera kosinn í öllum könnunum sem óvinsælasti stjórnmálamaðurinn ansi lengi og núna er hann orðinn höfuðið á stjórnskipan landsins,“ segir Inga.

Er það næg ástæða fyrir vantrauststillögu, þarf hann ekki að hafa brotið af sér sem forsætisráðherra?

„Hann náttúrulega taldi sig hafa axlað ábyrgð þegar hann fór úr fjármálaráðuneytinu í utanríkisráðuneytið á sínum tíma. Honum þótti það nægja til þess að axla sína ábyrgð gagnvart áliti umboðsmanns, það er ýmsum sem þykir það ekki nóg. Með því hefur hann skapað ákveðna – næstum því – hefð. Nú er Svandís farinn úr matvælaráðuneytinu yfir í eitthvað annað til að losna undan vantrausti. Það er að skapast einhver hefð sem mér hugnast ekki,“ segir Inga og bætir við að nauðsynlegt sé að embættisglöpum fylgi afleiðingar.

Hún segir mikinn samhug í stjórnarandstöðunni og lofar sterkri andstöðu frá þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert