31% félagsmanna í Skólastjórafélagi Íslands, 27% félagsmanna í Félagi leikskólakennara og 26% félagsmanna í Félagi grunnskólakennara segja ólíklegt eða mjög ólíklegt að þeir verði áfram í starfi eftir fimm ár. Formaður Kennarasambands Íslands segir þessar tölur vekja ugg.
Þetta eru meðal niðurstaðna könnunar sem Félagsvísindastofnun framkvæmdi fyrir Kennarasamband Íslands (KÍ) í febrúar þar sem spurt var um viðhorf kennara til starfsins og KÍ.
Það var Magnús Þór Jónsson, formaður KÍ, sem fór yfir niðurstöður könnunarinnar á ráðstefnu Kennarasambandsins sem fram fer í Hörpu í dag.
Meðal spurninga í könnuninni var „hversu líklegt eða ólíklegt er að þú verðir í sama starfi eftir fimm ár?“ Niðurstaðan sýnir að um og yfir 50% félagsmanna í aðildarfélögum KÍ telur mjög eða frekar líklegt að þeir verði í sama starfi eftir fimm ár.
Sé hins vegar einungis litið til þess í hvaða störfum er frekar eða mjög ólíklegt að félagsfólk verði í eftir fimm ár má sjá að félagsmenn bæði Skólastjórafélags Íslands, Félags leikskólakennara og Félags grunnskólakennara sjá sig ekki í sama starfi eftir fimm ár.
Í erindi sínu sagði Magnús þetta tölur sem auðvitað vekja ugg. Það væri auðvitað þannig að reynsla skipti máli og að starfsaldur hefði aðeins áhrif á niðurstöðurnar enda starfsaldur Skólastjórafélagsins hærri en í mörgum öðrum félögum.
Þrátt fyrir það sagði hann hættumerki á ferð. Er það vegna þess að sé horft inn í stétt skólastjóra, sem er að eldast, virðist ekki skipta máli t.d. líf- eða starfsaldur kennarahópa í grunn- og leikskólum, þ.e. í samhengi þess að fólk sjái sig ekki í starfi eftir fimm ár.
„Þannig að þarna eru svo sannarlega verkefni sem við þurfum að horfa til,“ sagði Magnús.