Formaður Félags stjórnenda leikskóla (FSL) gagnrýnir viðbragðsleysi stjórnvalda þegar kemur að fjölda barna innan leikskóla landsins. Hann segir of mörg börn í of litlu rými og spyr sig hvort troðningur og lélegt loftrými geti átt þátt í þeim mygluvanda sem margir leikskólar standa frammi fyrir.
Kennarafélag Íslands (KÍ) stóð fyrir ráðstefnu í Hörpu í dag undir yfirskriftinni Skóli nútíðar - vegvísir til framtíðar. Til umræðu voru áherslur og afstaða kennara, stjórnenda og skólafólks til kennslu og skólastarfs, þar sem meðal annars var horft til könnunar Félagsvísindastofnunar þar sem spurt var um viðhorf kennara til starfsins og KÍ.
Sigurður Sigurjónsson, formaður FSL, aðildarfélags KÍ, var meðal þeirra sem tók þátt í ráðstefnunni, en auk þess að vera með erindi tók hann þátt í pallborðsumræðum.
Það var í pallborðumræðum sem upp kom spurning um starfsaðstæður kennara. Sigurður var meðal þeirra sem lagði sig fram um að svara þeirri spurningu en hann hefur verið að skoða hvernig leikskólakerfið hefur þróast síðustu ár og áratugi.
Á þessum tíma segist hann hafa fylgst með kerfinu vaxa of mikið og of hratt sem veldur því að of mörg börn í leikskólum eru í of litlu rými. Til útskýringar segir hann ákveðið regluverk gilda um húsnæði vinnustaða sem Vinnueftirlitið setur.
„Þar eru sterkar vísbendingar um að það sé margbrotið í mörgum skólum. Að rými sé ekki skaffað á löglegan hátt,“ segir Sigurður sem kveðst hafa reynt að vekja máls á vandanum við yfirvöld.
„Þetta hef ég rætt við fráfarandi forsætisráðherra [Katrínu Jakobsdóttur] og mennta og barnamálaráðherra [Ásmund Daða Einarsson] og viðbrögðin eru engin. Þetta er fólkið sem er löggjafinn í landinu og þetta eru reglur sem eru settar og byggðar í þeim lögum sem gilda í landinu en það virðist enginn hafa áhuga á að fara eftir því,“ segir Sigurður.
Inntur eftir nánari útskýringum á því hvernig brotið sé á regluverkinu segir hann að í fyrsta lagi sé kveðið á um ákveðinn lágmarks fermetrafjölda, í leikrými barna, í byggingarreglugerð. Þetta séu þrír fermetrar að lágmarki.
Því næst segir hann að í reglum um húsnæði vinnustaða sé kveðið á um tólf rúmmetra loftrými fyrir hvern starfsmann, án nokkurs búnaðar í rýminu. Í samráði við vinnueftirlitið hefur FSL reiknað það út með reiknireglunni að þetta geri 4,8 fermetra rými á hvern starfsmann.
„Ég ætla að fullyrða að í mjög fáum tilfellum standist það, að starfsmanni sé gefið það rými sem hann á rétt á.“
Sigurður segir þessi mál ítrekað hafa verið rædd meðal félagsmanna FSL. Því séu stjórnendur leikskóla mjög meðvitaðir um vandann. Hann hafi til að mynda rætt við stjórnendur sem segja misjafnt hvernig fermetratala leikskólanna sé reiknuð, eftir því hvort það sé til útboðs á ræstingum eða til útreiknings á því hversu mörg börn hver skóli hefur rými fyrir.
„Þá er verið að spara pening, því sá sem ræstir hann skúrar ekki undir gólfföstum skápum, en hins vegar reikna þeir með því að börnin séu inni í skápunum að leika sér og taka þá fermetra undir leikrými,“ útskýrir Sigurður og bætir við að í einhverjum tilfellum sé jafnframt reiknað með bæði inn- og útveggjum húsnæðisins í fermetratöluna þegar hún er reiknuð til að vita hámarksfjölda barna í rýmið.
Myndir þú þá vilja sjá ræstingar fermetratöluna notaða?
„Ég myndi vilja að það yrði farið eftir lögum og reglum sem eru sett um starfsemi vinnustaða og leikskóla. Ef við förum eftir því og sammælumst um hvernig eigi að framkvæma það þá er þetta ekkert mál. Málið er að þetta mun kosta töluvert mikið fyrir sveitarfélögin, en hvers virði er vellíðan barna? Ég veit ekki hvernig sveitarfélögin ætla að verðleggja það.“
Mygluvandi sem margir leikskólar standa frammi fyrir er meðal þess vanda sem Sigurður hefur skoðað í samhengi við of mikinn fjölda barna í hverju rými.
„Vinnueftirlitið setur reglur um það hversu mikið loftrými þú átt að hafa í þinni vinnu. Ef það er verið að brjóta þær reglur, þá væntanlega er loftrýmið lélegt,“ veltir Sigurður upp.
Hann nefnir sem dæmi að ef tveir starfsmenn deili 12 rúmmetra loftrými, þá sé helmingi meiri umgangur í rýminu en vinnueftirlitið gerir ráð fyrir og þar af leiðandi megi gera ráð fyrir að loftgæðin þar inni séu minni.
Til viðbótar segir hann leikskóla marga hverja gamla með lélega loftræstingu. Vinnueftirlitið geri ráð fyrir ákveðnu súrefnismagni í hverju rými en það sé þverbrotið í byggingunum.
„Það hlýtur að hafa einhver áhrif, en ég ætla ekki að kenna því um öll þessi mygluvandamál,“ segir Sigurður og áréttir að einungis sé um getgátur og vangaveltur að ræða. Í því samhengi bætir hann þó við:
„Einhverra hluta vegna setur Vinnueftirlitið þó reglur um loftrými.“
Sigurður segir Vinnueftirlitið þó í einhverjum tilfellum hafa farið inn í skóla og látið gera breytingar vegna þessa, en hugsanlega sé það ekki nægilega öflugt í málum sem þessum.