Landsliðsnefnd Hestamannafélaga (LH) var óheimilt að víkja Jóhanni Rúnari Skúlasyni ótímabundið úr landsliðshópi Íslands þann 31. október 2021.
Er þetta niðurstaða áfrýjunardómstóls ÍSÍ, þangað sem Jóhann áfrýjaði dómi dómstóls ÍSÍ. Niðurstaða fyrri dómsins var sú að ákvörðun um að víkja Jóhanni úr landsliðinu skyldi standa.
Eiðfaxi greinir frá.
Málið nær aftur til ársins 2021 þegar Jóhanni Rúnar var vikið úr landsliðshópnum eftir að upplýsingar komu fram um dóm sem hann hafði hlotið fyrir kynferðisbrot.
Niðurstaða áfrýjunardómstólsins byggir á því að stjórn landsliðsnefndar LH hafi ekki haft lagalega heimild til að víkja honum úr hópnum án tilgreiningar á tímalengd útilokunar, að því er fram kemur í Eiðfaxa.
Þar segir jafnframt að brottvísunin hafi ekki verið heimil á grundvelli þeirrar lagagreinar íþróttalaga og laga ÍSÍ sem vísað var til í yfirlýsingu stjórnar og landsliðsnefndar sem gefin var út sama dag.
Í dómnum er þrátt fyrir það tekið fram að það sé í höndum landsliðsþjálfara og landsliðsnefndar hverju sinni að velja knapa í landsliðið. Svigrúmið sé þó ekki takmarkað.
Í samtali við Eiðfaxa kveðst Guðni Halldórsson, formaður LH, fyrst og fremst ánægður með að málinu sé lokið og bindur vonir við að nú geti félagið farið að snúa sér að öðru. Hann segir jafnframt að dómurinn snúist fyrst og fremst um túlkun á lagatæknilegu atriði og hvort heimilt hafi verið að vísa í tiltekna lagagrein.
Aðalatriði dómsins segir hann vera að dómurinn taki af öll tvímæli um að landsliðsþjálfari og landsliðsnefnd hafi fulla heimild til að ákveða hverjir skipa landslið hverju sinni.