Segir talsvert um galla í nýbyggingum

Hildur segist þekkja dæmi um verið sé að vinna með …
Hildur segist þekkja dæmi um verið sé að vinna með byggingarefni í byggingu nýrra húsa sem standast hvorki regluverk né íslenskar aðstæður. Myndin er úr safni. mbl.is/Arnþór

Hildur Ýr Viðarsdóttir, varaformaður Húseigendafélagsins og einn eiganda lögfræðistofunnar Landslög, telur að þörf sé á breytingum á regluverki í kringum þau byggingarefni sem notuð eru hér á landi. Hún segist þekkja dæmi um verið sé að vinna með byggingarefni í byggingu nýrra húsa sem standast hvorki regluverk né íslenskar aðstæður.

„Árið er 2024 og það er enn talsvert um galla í nýbyggingum,“ segir Hildur í samtali við mbl.is. 

Hildur tekur undir það sem kemur fram í grein sem Svana Helen Björnsdóttir skrifaði í Morgunblaðið um helgina. Svana bendir á í grein sinni að myglu- og rakavandamál séu að verða enn algengari vegna nýrra aðferða. 

Byggingarefnin standast ekki kröfur

„Ég þekki dæmi um gallamál þar sem hefur verið að nota loftadúka sem standast ekki kröfur byggingarreglugerðar og gluggar sem standast ekki kröfur,“ segir hún. 

Hún segir það hafa mikil áhrif á fólk sem lendir í því að kaupa fasteign sem heldur ekki vatni. Til dæmis geti slík vandamál leitt af sér mygluvandamál sem síðan geta leitt til heilsubrests. 

Hildur tekur undir með grein Svönu sem bendir á að gæði byggingarefna, sem koma til landsins, séu ekki prófuð áður en þau séu notuð. 

„Það eru greinilega að koma inn á markaðinn byggingarefni sem uppfylla ekki lög og skyldur og henta ekki fyrir íslenskar aðstæður,“ segir Hildur.

Hildur tekur Bretland sem dæmi um land sem tók í gegn regluverk sitt að því er varðar eftirlit með byggingarframkvæmdum og ábyrgð á göllum tengdum þeim í kjölfar brunans í Grenfell Tower árið 2017. Í kjölfar brunans var nýju embætti komið á fót. 

„Þá var allt eftirlit aukið og fyrningarfrestir lengdir og gerðar kröfur um meðábyrgð fyrirtækja sem tengjast byggingaraðila.“

Hildur Ýr Viðarsdóttir varaformaður Húseigendafélagsins segir að endurskoða þurfi regluverkið …
Hildur Ýr Viðarsdóttir varaformaður Húseigendafélagsins segir að endurskoða þurfi regluverkið heildstætt þegar kemur að notkun byggingarefna hér á landi. mbl.is/Hallur Már

Frekari fræðsla og breytt regluverk

„Maður veltir fyrir sér hvort það þurfi ekki að breyta regluverkinu heildstætt,“ segir hún og bætir við að einnig sé mikilvægt að auka fræðsluna í þessum málum.

„Bæði þeirra sem eru að byggja og þeirra sem eru að kaupa. Hvað eiga neytendur að hafa í huga við kaup á fasteign,“ spyr Hildur. 

Hún segist þá einnig þekkja til dæma þar sem byggingarefnin, sem eru keypt til landsins, eru ekki gölluð en látin standa í óveðri svo mánuðum skipti eins og efni fyrir glugga svo dæmi sé tekið.

„Þá eru þeir búnir að missa eiginleika sína og svo lekur húsið af því að það var ekki rétt meðferð á gluggunum,“ segir Hildur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka