Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra og þingmaður Vinstri grænna, verður innviðaráðherra í nýrri ríkisstjórn með Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, tekur við matvælaráðuneytinu af Svandísi.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, formaður flokksins, mun áfram gegna embætti félags- og vinnumarkaðsráðherra.
Eins og mbl.is greindi frá í gær þá hefur vantrauststillaga á hendur Svandísi, sem enn er matvælaráðherra, verið lögð fyrir Alþingi.
Þetta staðfesti Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.
„Vantrauststillagan hefur verið skráð inn. Spurningin er bara hversu hratt Svandís hleypur úr ráðuneytinu til að losna við hana,“ segir Inga í samtali við mbl.is.
„En stóra spurningin er hvort ég muni elta hana á milli ráðuneyta.“