Álíka margar brottfarir og metárið 2018

Ferðamenn á Keflavíkurflugvelli.
Ferðamenn á Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru um 173 þúsund í nýliðnum mars, samkvæmt mælingum Ferðamálastofu.

Brottfarirnar eru álíka margar og mældust í mars, metárið 2018, að því er segir í tilkynningu frá Ferðamálastofu.

Tvær af hverjum fimm brottförum voru tilkomnar vegna Bandaríkjamanna og Breta. Frá áramótum hafa um 460 þúsund erlendir farþegar farið frá Íslandi en á sama tíma í fyrra voru brottfarir þeirra um 421 þúsund talsins. Fjölgunin nemur 9,9%  á milli ára.

Samtals voru brottfarir á tímabilinu janúar til mars í ár um 95,8% af þeim brottförum sem mældust á sama tímabili metárið 2018.

Brottfarir Íslendinga voru um 56 þúsund í mars, verulega fleiri en í fyrra. Hafa ber í huga að utanferðir Íslendinga í tengslum við páska voru í mars í ár en í apríl í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert