Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir er nú aftur tekin við sem utanríkisráðherra eftir um sex mánaða fjarveru. Hún segist hlakka til að hefja störf á nýju og vonast til að vera landi og þjóð til sóma.
Hún segir erfitt að skilja við fjármála- og efnahagsráðuneytið eftir svona stuttan tíma. Mörg verkefni séu ókláruð og hún hafi verið rétt að byrja.
Þórdís tekur við af Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra. „Ég veit að þú kemur hingað og verður eins og fiskur í vatni í utanríkisráðuneytinu,“ sagði Bjarni við Þórdísi við lyklaskiptin og óskaði henni góðs gengis.
Þórdís segir gott að vera komin aftur í utanríkismálin. Þá þekki hún málaflokkinn og helstu viðfangsefnin vel. Hún segir viðfangsefnin ekki hafa verið eins mikilvæg í marga áratugi, allt frá síðari heimsstyrjöld.
„Það er ábyrgðarhluti að Ísland, sem sjálfstætt og fullvalda ríki, sinni því ekki bara af sóma heldur líka af ábyrgð og alvöru, festu og yfirvegu,“ segir Þórdís.
Þrátt fyrir að einungis sé hálft ár síðan hún kvaddi utanríkisráðuneytið segir hún alþjóðamálin vera á verri stað. Það sé meiri spenna og ógn við að staðan í heiminum verði verri áður en hún verði betri.
Þórdís segir erfitt að fara úr fjármála- og efnahagsráðuneytinu eftir svona stuttan tíma. Hún sé nú að kveðja embættið eftir hálft ár, sem hún hélt að yrðu að minnsta kosti tvö ár.
Hún hafi gengið inn í stór verkefni sem fylgja embættinu eins og fjárlögin, sem þá voru í þinginu, og vinnu að fjármálaáætlun og aðkomu ríkisins að kjarasamningum.
Kveðst hún hafa verið tilbúin að takast á við þau stóru mál, eins og aðgerðir á Reykjanesskaga og í Grindavík.
„Ofan í þau mál sem ég vildi setja á dagskrá, sem eru ekki þessi mest áríðandi mál heldur eru mikilvæg. Auðvitað er eftirsjá að því að vera búin að undirbúa slík mál. Ég vildi skilja eftir mig mjög skýr spor.“
Eftirsjá sé að því en hún myndi ekki vilja hafa það neitt öðruvísi.
„Alveg sama hvað þú ert að gera, ef þú nálgast verkefnið þannig að þú leggir þig alla fram og þú gefur þig alla í það verkefni þá er eðlilegt að það sé eftirsjá þegar þú svo ferð, sérstaklega þegar það er skemmri tími en þú ætlaðir þér.“
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins hefur nú tekið við sem forsætisráðherra. Sjálf var Þórdís orðuð við forsætisráðherrastólinn. Spurð út í það segir Þórdís gott að vita til þess að ríkisstjórnin sé leidd undir forystu Sjálfstæðisflokksins.
Þá segir hún eðlilegt að flokkurinn hafi tekið við stólnum þar sem hann er stærsti þingflokkurinn á Alþingi.
„Nú er bara að láta verkin tala og sýna þann árangur sem við höfum lofað.“
Mörg verkefni eru fram undan hjá ríkisstjórninni og nefnir Þórdís sérstaklega ríkisfjármálin, orkumálin og útlendingamálin.
„Það eru þessi verkefni sem skipta máli. Auðvitað skiptir máli hver situr í hvaða stól og hvaða hugmyndafræði verður ofan á.“