Sigurður Ingi Jóhannsson, fráfarandi innviðaráðherra, segist treysta Svandísi Svavarsdóttur mjög vel fyrir innviðaráðuneytinu.
Hann afhenti henni lyklana að ráðuneytinu fyrr í morgun. Sjálfur er Sigurður Ingi að taka við fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
Að loknum lyklaskiptunum í morgun sagði hann Svandísi vera gamlan borgarfulltrúa og því þekkti hún vel til sveitarstjórnarmála. Hann sagði mörg stór verkefni hafa verið á borði ráðuneytisins eins og húsnæðismál, samgöngumál og samgöngusáttmálann.
„Ég veit að þó að hún sé alin upp í borg þá slær hjarta hennar líka um allt land þannig að ég treysti henni mjög vel til þessara verka,” sagði Sigurður Ingi.
Spurður hvort hann búist við breytingum í ráðuneytinu sagði hann Svandísi þurfa tíma til að setja sig inn í stefnumörkunina.
„Við höfum verið mjög dugleg í þessu ráðuneyti að móta langtímastefnur og sækja þær síðan til Alþingis. Ég veit að hún mun halda áfram á þeirri góðu braut í samtarfi við þá stefnu sem er samþykkt á Alþingi. En auðvitað er það þannig að þegar það kemur nýtt fólk þá eru einhverjar áherslubreytingar sem tengjast persónu fólks,” svaraði hann.