Glöggir Facebook-notendur hafa tekið eftir því að Jón Gnarr, sem býður sig fram til forseta, hefur breytt Facebooksíðu Besta flokksins í stuðningssíðu fyrir framboð sitt.
Síðan hefur legið í láginni um nokkurt skeið enda Besti flokkurinn ekki lengur valkostur í borgarstjórnarkosningum.
Síðan er með 15 þúsund fylgjendur og því ekki ósennilegt að þar megi finna mögulega stuðningsmenn Jóns í komandi forsetakosningum.
Besti flokkurinn var hugarfóstur Jóns sjálfs á sínum tíma og komst hann í meirihluta í borgarstjórnarkosningum árið 2010. Settist Jón í kjölfarið í stól borgarstjóra og sinnti því hlutverki til ársins 2014.
Í nýlegri skoðanakönnun frá Maskínu mælist Jón með tæplega 20% fylgi, sem er þriðja mesta fylgið á eftir þeim Katrínu Jakobsdóttur og Baldri Þórhallssyni.