Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, nýr sjávarútvegs- og matvælaráðherra, segir embættið leggjast vel í sig. Hún kveðst spennt fyrir verkefninu og hlakkar til að læra meira.
„Kynnast nýju fólki, kynnast nýjum verkefnum og þó ég þekki nú sum þeirra betur en önnur þá er auðvitað eins og ævinlega margt sem að ég held að almenningur sé ekkert endilega að hugsa um vegna þess að það eru auðvitað stóru málin sem taka sviðið en ekki mörg önnur sem þarf þó að sinna,“ segir Bjarkey og nefnir sem dæmi landgræðslu og skógrækt.
Bjarkey tók í dag við lyklunum að matvælaráðuneytinu af forvera sínum Svandísi Svavarsdóttur sem tekur við embætti innviðaráðherra af Sigurði Inga Jóhannssyni.
Spurð hvaða verkefni séu fyrst á dagskrá nýs ráðherra nefnir Bjarkey lagareldismálið sem bíði fyrstu umræðu á þinginu.
„Ég hyggst fylgja því vel úr hlaði og hlakka til góðrar samvinnu við þingið um það.“