Tímakaup nemenda í Vinnuskóla Reykjavíkur mun hækka í sumar um 7,9%, með fyrirvara um samþykki Borgarráðs um aukafjárveitingu. Enn fremur verða laun nemenda fest við ákveðinn launaflokk og munu í framtíðinni fylgja hækkunum á honum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg en umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar samþykkti þetta á fundi sínum í morgun.
„Launin verða fest við launaflokk 217, sem er grunnlaunaflokkur í kjarasamningi Sameykis og Reykjavíkurborgar, dagvinnukaup 2.555 krónur á klukkustund. Nemendur í 8. bekk fá framvegis greidd 30% af launaflokki 217, nemendur í 9. bekk 40% og nemendur í 10. bekk 50% af launaflokknum,“ segir í tilkynningunni.
Fram kemur að í fjárhagsáætlun séu rúmlega 268 milljónir á launalið nemenda en með hækkun launataxta og áætlaðan fjölda nemenda fyrir sumarið 2024, 3.000 nemendur, þarf að sækja um hækkun á launalið um 21 milljón.
Þá kemur fram að með þessum hætti verði laun nemenda í Vinnuskóla Reykjavíkur sambærileg við laun í flestum vinnuskólum höfuðborgarsvæðisins.