Norðurlandaráð gaf frá sér yfirlýsingu um stöðuna fyrir botni Miðjarðarhafs á mánudag. Í yfirlýsingunni segir að Norðurlöndin skuli vinna að friði og sáttum vegna stöðunnar fyrir botni Miðjarðarhafs.
Árið 2024 gegnir Ísland formennsku í Norðurlandaráði, samstarfi þingmanna á Norðurlöndum.
Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og varaforseti ráðsins, lagði yfirlýsinguna fram fyrir forsætisnefnd Norðurlandaráðs, sem samþykkti hana einróma á þemaþingi Norðurlandaráðs sem fram fór í Þórshöfn í Færeyjum dagana 8. og 9.apríl.
„Ástandið er sannarlega flókið og hatrammar deilur hafa staðið áratugum saman. Því mikilvægara er fyrir ríki sem segjast virða alþjóðasamþykktir og mannréttindi með ráðum og dáð, að beita sér fyrir friðarumleitunum og láta friðarraddir heyrast á pólitískum vettvangi. Það höfum við í Norðurlandaráði áður gert og það er ekki síður mikilvægt að við gerum það nú,“ sagði Oddný G. Harðardóttir á þinginu í Færeyjum.
Í tilmælum Norðurlandaráðs nr. 21/2015 segir: „Norðurlandaráð beinir þeim tilmælum til norrænu ríkisstjórnanna að þær hvetji Ísraelsmenn og Palestínumenn og veiti þeim stuðning til að stuðla að friði og sáttum með friðarsamningi sem byggi á alþjóðarétti og ályktunum SÞ.“
Yfirlýsingin undirstrikar þá löngu hefð sem fyrir því hefur verið á Norðurlöndum að vernda og framfylgja alþjóðalögum og samningum með því að styðja við starf alþjóðastofnana, einkum á vegum Sameinuðu þjóðanna.
„Norðurlönd hafa komið fram á alþjóðavettvangi sem boðberar friðar og hvatt til alþjóðlegra samninga um frið og afvopnun og skapað umgjörð fyrir mikilvægar friðarviðræður í gegnum tíðina. Nægir þar að nefna friðarviðræðurnar á milli Reagans og Gorbatjov[s] á Íslandi árið 1986 og Oslóarsamkomulagið 1993 og 1995 milli Palestínu og Ísrael.“
Í yfirlýsingunni segir enn fremur: „Friður er eitt af norrænu gildunum og sterkur vilji er fyrir því að norrænu löndin og Norðurlandaráð beiti sér fyrir friðsamlegum lausnum á deilum. Norðurlöndin hafa gott orð á sér úti í hinum stóra heimi sem boðberar friðsamlegra lausna og þau njóta mikils trausts.“
Yfirlýsinguna í heild má lesa hér.