Skýrt umboð þrátt fyrir afsögn í fyrra

Bjarni Benediktsson kveðst vera spenntur að koma inn í forsætisráðuneytið …
Bjarni Benediktsson kveðst vera spenntur að koma inn í forsætisráðuneytið og fyrir áframhaldandi samstarfi ríkisstjórnarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Benediktsson, nýr forsætisráðherra, tók við lyklavöldum í forsætisráðuneytinu á níunda tímanum í morgun.

Við lyklaskiptin þakkaði Bjarni Katrínu Jakobsdóttur, fráfarandi forsætisráðherra, fyrir samstarfið og óskaði henni góðs gengis í næstu verkefnum. 

Kemur inn með mikla reynslu

Að lyklaskiptunum loknum ræddi Bjarni við fjölmiðlafólk. Hann segir það góða tilfinningu að vera að koma inn í forsætisráðuneytið. Hann segir umboð sitt alveg óskert þrátt fyrir afsögn sem fjármálaráðherra.

„Ég hef aldrei haft eins mikla reynslu eins og þegar ég kem hingað af því að sitja í ríkisstjórn og eiga í samstarfi við aðra flokka. Ég hef líka komið hingað áður þannig ég þekki margt af því fólki sem hér starfar, sem og húsið og hlutverkið,“ sagði Bjarni við fjölmiðla. 

Þá segir hann forréttindi að fá tækifæri sem stjórnmálamaður að stýra ríkisstjórn og vera í stjórnarmeirihluta. 

Ríkisstjórnin sterk

Spurður hvort viðræður síðustu daga muni koma í veg fyrir ágreining stjórnarflokkanna segir Bjarni að ekki megi gera of mikið úr því að það taki nokkra daga að komast að niðurstöðu um áframhaldandi samstarf. 

Hann ítrekar að ríkisstjórnin sé með rúman meirihluta á þingi og með margra ára samstarfssögu að baki. Styrkur ríkisstjórnarinnar byggist á því umboði sem kjósendur hafi veitt henni. 

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra ræðir við fjölmiðlafólk að lyklaskiptum loknum.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra ræðir við fjölmiðlafólk að lyklaskiptum loknum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dugar til að gegna hlutverkinu

Bjarni segir það eðlilegt að vera kominn í forsætisráðuneytið eftir að hafa sagt af sér sem fjármálaráðherra fyrir hálfu ári. 

„Ég sé í sjálfu sér ekki mikla tengingu þar á milli. Þar var ég að bregðast við einu tilteknu máli og ég tel að ég hafi gengið jafnvel lengra en margir höfðu væntingar um. Þar með var kvittað fyrir það mál.“

Skoðanakannanir hafa sýnt að Bjarni njóti minnst traust ráðherra í ríkisstjórn. Spurður hvort það hafi áhrif gefur Bjarni í skyn að svo sé ekki.

„Ég er sjálfur með langa sögu þess að sigra allar væntingar og skoðanakannanir. Ég stend hérna sem sá þingmaður á Alþingi sem er með flest atkvæði landsmanna að baki sér.

Það er afrakstur síðustu kosninga, það dugar mér vel til þess að gegna mínu hlutverki, sama hvað skoðanakönnunum líður.“

Nóg af verkefnum fram undan

Þá segir Bjarni nóg að gera fram undan. Hann muni leggja áherslu á að tryggja framgöngu þingmála sem nú liggja í þinginu. Þar má nefna mál sem lítur að fiskeldi, endurskoðun á örorkulífeyriskerfinu og hælisleitendamál. 

Þá segir hann ríkisstjórnarsamstarfið enn byggja á sama grunni og ekki hafi verið samið um neitt upp á nýtt í viðræðum síðustu daga. Einfaldlega hafi flokkarnir verið að taka stöðuna og eiga samtal.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert