Sigurður Ingi Jóhannsson segir það spennandi að taka við fjármálaráðuneytinu. Þetta sé mikilvægt verkefni sem þurfi að nálgast af auðmýkt. Hann tók við lyklavöldunum að fjármálaráðuneytinu í morgun úr hendi Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur, sem færir sig aftur yfir í utanríkisráðuneytið.
Sigurður Ingi bendir á að hann hafi verið viðloðandi ríkisfjármálin frá árinu 2016, þá sem forsætisráðherra, í ráðherranefnd um ríkisfjármál. „Þetta er mjög stórt verkefni og mikilvægt,“ segir Sigurður Ingi í samtali við mbl.is.
Hann bætir við að hann ætli að gera sitt allra besta í nýju hlutverki „af skynsamlegri auðmýkt en með þá þekkingu og reynslu sem ég tek með mér.“
Spurður út í fjármálaáætlunina segir Sigurður Ingi: „Hún er frágengin af hendi ríkisstjórnarinnar og liggur fyrir að hún verði lögð fram á Alþingi næstu daga. Og verður væntanlega umræða um hana í næstu viku.“
Aðspurður segir Sigurður Ingi að það sé engin ástæða til að fara í skattahækkanir eða mikinn niðurskurð.
„Undanfarin ár hefur verið gríðarlegur hagvöxtur. Jafnvel um of – þenslan um of. Það er ástæðan fyrir því að Seðlabankinn hefur gengið svona hart fram með stýrivaxtahækkunum og öðrum þeim aðgerðum. Við erum enn svolítið í þeirri áskorun að það er enn nokkur þensla á meðan aðrir hlutar samfélagsins eru augljóslega farnir að sýna merki um að þessi peningastefna er farin að hafa áhrif.
Í því ljósi, og þó að hagvöxtur verði minni, þá kallar það ekki á niðurskurð heldur kallar á svona meira jafnvægi í lendingunni. Þannig að við getum náð öllum þessum þáttum, það er að segja þenslunni aðeins hægar og meira niður. Verðbólgunni og vöxtunum klárlega niður,“ segir hann og bætir við að það síðastnefnda sé aðalmálið.
Aðspurður segist Sigurður Ingi sjá teikn á lofti um að verðbólga og vextir fari niður. Þegar hann er spurður um hvenær það gæti gerst, þá segir ráðherra að það sé mikilvægt að spá varlega.
„En ef allt þetta gengur upp sem við höfum verið að vinna að það sem maður virðist sjá í loftunum, þá ætti þetta nú að gerast á næstu mánuðum og jafnvel hraðar.“