Undirbúa vantrauststillögu á ríkisstjórnina

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. mbl.is/Eyþór

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segir vantrauststillögu á ríkisstjórnina í heild sinni í undirbúningi.

Ekki sé þó búið að ákveða hvenær tillagan verði lögð fram.

Óformleg samtöl hafi átt sér stað við aðra í stjórnarandstöðunni og að sögn Ingu eru allir reiðubúnir í kosningar nema þeir sem eigi sæti í ríkisstjórninni. 

Rúv greindi fyrst frá. 

Annað hvort á ríkisstjórnina eða Bjarna

Inga hefur áður sagst vera að íhuga vantrauststillögu á ríkisstjórnina eða Bjarna Benediktsson forsætisráðherra. Aðspurð segist hún ætla að láta eina vantrauststillögu duga. 

„Annað hvort setjum við á ríkisstjórnina eða Bjarna. Við erum ekki með fullt af vantrauststillögum. Ef ég er að undirbúa vantrauststillögu á ríkisstjórnina þá er hitt út af borðinu,“ segir Inga sem útilokar þó ekki að skipta um skoðun, þ.e. að leggja tillögu fram gegn Bjarna en ekki ríkisstjórninni.

Hvenær sérðu fyrir þér að þessi vantrauststillaga gegn ríkisstjórninni verði hugsanlega lögð fram?

„Við erum enn þá á undirbúningsstigi. Það er enginn fæðingardagur á henni.“

„Ekki enn þá búin að brjóta af sér“

Á mánudag lagði Flokkur fólksins fram vantrauststillögu gegn Svandísi Svavarsdóttur, vegna lögbrots í starfi hennar sem matvælaráðherra. Svandís tók í morgun við lyklunum að innviðaráðuneytinu.

„Mér skilst nú að stjórnskipanin sé ekki að bjóða mér það að elta hana hvert sem ég vil. En ég er nú svo sem að spyrja lögfræðisvið þingsins að því núna og skoða það. Það er voða sérstakt að ætla að koma með vantraust á matvælaráðherra vegna afglapa hennar í starfi og svo bara flýr hún í annað ráðuneyti og þá veit ég ekkert hvað ég á að gera við þetta,“ segir Inga og bætir við: 

„Hún er ekki enn þá búin að brjóta af sér sem innviðaráðherra.“

Þá veltir hún því upp hvort stjórnmálamenn séu að móta hefð fyrir því að ráðherrar geti flúið embætti brjóti þeir af sér í starfi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka