Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, nýr sjávarútvegs- og matvælaráðherra, skrifaði upp á breytingu atvinnuveganefndar á frumvarpi um breytingar á búvörulögum sem samþykkt var á þingi í lok febrúar.
Þetta staðfesti Bjarkey í samtali við mbl.is að loknum lyklaskiptum í matvælaráðuneytinu, en Bjarkey tók í dag við lyklunum að matvælaráðuneytinu úr höndum Svandísar Svavarsdóttur núverandi innviðaráðherra. Heimildin greinir frá.
Tilefni spurningarinnar var bréf sem atvinnuveganefnd Alþingis barst frá matvælaráðuneytinu á mánudag, eða tveimur dögum áður en lyklaskipti á ráðuneytinu fóru fram. Í bréfinu eru breytingar og vinnubrögð atvinnuveganefndar gagnrýndar auk þess sem gerðar eru athugasemdir við endanlega útgáfu laganna.
Þá segir jafnframt að matvælaráðuneytið telji að lögin, sem undanskilja stórfyrirtæki í landinu frá samkeppnislögum, gangi mögulega gegn EES-samningnum. Til viðbótar gagnrýnir ráðuneytið að sérfræðingar úr ráðuneytinu hafi ekki verið boðaðir á nefndarfund í tengslum við umræddar breytingar.
Nýr matvælaráðherra, Bjarkey, var nefndarmaður í atvinnuveganefnd þegar umræddar breytingar á lögum voru gerðar og samþykktar. Aðspurð kveðst Bjarkey ekki hafa verið stödd í þinginu þegar lögin voru samþykkt en hún kveðst þó hafa skrifað upp á breytingarnar innan nefndarinnar.
Ertu sammála þessu bréfi frá matvælaráðuneytinu?
„Nú er ég bara ekki búin að sjá það, þannig að ég get eiginlega ekki tjáð mig um það frekar og þarf bara að setjast yfir það hvernig við förum með það í framhaldinu og þingið,“ svarar Bjarkey.
Hvað finnst þér um að bréfið hafi verið sent eftir að lögin voru samþykkt?
„Ég svo sem kannski get ekki tjáð mig um það. Það hefur áður gerst að bréf hafa komið eftir á þegar lög hafa verið samþykkt um eitthvað þar sem þinginu er bent á ákveðin atriði. Nú eða þá að það hefur verið lagfært í framhaldinu inni á ráðuneytum ef þess hefur gerst þörf,“ segir Bjarkey og bætir við:
„Svona fór þessi afgreiðsla og við töldum okkur í góðri trú í því að gera þetta.“
Hvernig finnst þér að koma inn í ráðuneytið með þetta yfir þér?
„Ég hef engar áhyggjur af því. Við bara leysum það ef að leysa þarf.“
Spurð hvers vegna ráðuneytið hefði ákveðið að senda bréfið til nefndarinnar svarar Svandís að ráðuneytinu hefðu borist ábendingar frá ýmsum aðilum. Þegar þessar ábendingar höfðu verið skoðaðar taldi ráðuneytið rétt að láta nefndina vita því löggjafinn er þar, bara til að vekja athygli á tilteknum atriðum, segir Svandís.
Er eðlilegt að ráðuneytið hafi þessi afskipti eftir að lögin eru samþykkt?
„Það er ráðuneytið sem ákveður að gera það og ég held að það sé alveg eðlilegt. Þetta eru ekki afskipti af löggjöf, þetta er miklu frekar bara það að gera viðvart um þessi atriði,“ segir Svandís og bætir við að það sé nefndarinnar að taka ákvörðun um hvort og þá hvernig brugðist verði við bréfinu.