Hefur áhyggjur af hækkun fasteignaverðs

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segist vilja sjá sem mest aðhald í fjárlögum ríkisstjórnarinnar og að hann hafi áhyggjur af að fasteignaverð sé farið að hækka á ný.

Þetta var meðal þess sem kom fram í máli hans á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í dag þar sem rætt var um skýrslu fjármálastöðugleikanefndar til Alþingis fyrir árið 2023.

„Auðvitað vill Seðlabankinn sjá sem mest aðhald í fjárlögum og halli á fjárlögum er ekki góður,“ sagði Ásgeir, sem var gestur fundarins, sem og Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, sem senn lætur af störfum. 

Ásgeir sagði á fundinum að brýnt væri að ná tökum á verðbólgunni sem sé of há, en verðbólgan mælist nú 6,8%. Hann segir að hún hafi verið meðal annars verið rekin áfram með hækkun fasteignaverðs og hann segist hafa áhyggjur af bæði því að fasteignaverð sé farið að hækka á ný og af húsnæðisskorti.

Ásgeir segir alveg ljóst að stýrivaxtahækkanir hafi slegið á verðbólgu.

„Raunhagkerfið hefur hitnað og hagvöxturinn hefur verið mikill 2021, 2022 og 2023. Samtals um 20%. Það hefur leitt til þess að raunhagkerfið hefur hitnað sem lýsir sér meðal annars í mjög lágu atvinnuleysi og þrýsting á verðbólgu,“ sagði Ásgeir á fundinum.

Ásgeir segir að það hafi verið ágæt arðsemi hjá bönkunum en að það sé ekki lánabóla. Hann segir að skuldir heimila og fyrirtækja hafi lækkað að raunvirði. Ásgeir segir að það sé gott jafnvægi á gjaldeyrismarkaði og fjármagnsflutningum og að krónan hafi verið í mjög góðu jafnvægi undanfarin tvö ár.

Vanskil enn lítil í sögulegu samhengi

Ásgeir var spurður út í vanskil heimilanna sem hafa aukist um 42% á einu ári.

„Þau eru tiltölulega lítil í sögulegu samhengi en auðvitað er þetta ein sú áhætta sem þarf að fylgjast með. Enn sem komið er hefur hækkun vaxta ekki leitt til vandræða varðandi vanskil en það kann að breytast sérstaklega ef það verður samdráttur í kerfinu og fólk missir vinnuna,“ sagði Ásgeir.

Hann segir að það sjáist ekki nein merki um að háir vextir, sem sannarlega séu háir, hafi enn haft þau áhrif að það séu fleiri gjaldþrot, en það gæti vel gerst.

Ásgeir segir að gjaldeyrisvarasjóðurinn skipti mjög miklu máli fyrir peningastefnuna og hafi verið lykilatriði í árangrinum í covid.

Seðlabankinn rekinn með miklu tapi

„Á síðasta ári afhenti Seðlabankinn 20 milljarða króna til bankanna í vaxtatekjur. Seðlabankinn var rekinn með mjög miklu tapi, eitthvað um 15 milljarða. Peningastefna sem er rekin með þeim hætti og Seðlabankinn sé rekinn með svo miklu tapi er ekki trúverðug,“ sagði Ásgeir og bætti því við að margir seðlabankar úti í heimi séu reknir með miklu tapi.

Hann segir að ekki sé að hægt að prenta út þessa peninga, 20 milljarða króna, og henda þeim út í fjármálakerfið á hverju ári til að halda úti vaxtamun í bönkunum á sama tíma og eigið fé Seðlabankans gangi niður.

„Eftir því sem vextir eru háir lengur þá hefur slíkt áhrif á fyrirtækin og heimilin í landinu og yfir lengri tíma getur þetta haft áhrif á fjármálastöðugleika,“ sagði Gunnar Jakobsson á fundinum.

Um afnám verðtryggingarinnar sagði hann: „Það er ekkert fengið með því að banna verðtrygginguna og ég er ekkert viss um að við náum tökum á verðbólgunni með því. Verðbólgan er afleiðingin af þeirri virkni og kraftinum sem er hagkerfinu. Kaupmátturinn hefur aukist og það hefur líka verið að ýta undir verðbólguna.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert