„Hvað er eiginlega að frétta af þessum málum?“

Jóhann ræddi við lækni sem kvaðst vera í eins konar …
Jóhann ræddi við lækni sem kvaðst vera í eins konar varðhundshlutverki fyrir atvinnurekendur sem noti kröfu um veikindavottorð sem „ógnunartæki gagnvart starfsfólki“. mbl.is/Kristinn Magnússon

Á þriggja ára tímabili voru 504.670 vottorð gefin út hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þingmaður Samfylkingarinnar segir að heilsugæslukerfið einkennist af of mikilli skriffinnsku og að of lítill tími gefist til að sinna sjúklingum.

Heilbrigðisráðherra segir að breytingar á reglugerð um vottorð verði kynntar á næstu dögum.

„Á sama tíma og bið eftir þjónustu lengist og lengist og á sama tíma og mönnunarvandinn ágerist, þá er skriffinnska og vottorðagerð og tilvísanagerð og handtök fyrir framan tölvuskjá í handónýtu og úreltu sjúkraskrárkerfi allt saman að aukast með hverju árinu,“ sagði Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi.

Hann kvaðst hafa rætt við heimilislækni á dögunum sem tjáði honum að hann væri, í trássi við eigin vilja, í eins konar varðhundshlutverki fyrir atvinnurekendur sem séu að nota kröfu um veikindavottorð sem „ögunartæki gagnvart starfsfólki“. Þá sé þessu sérstaklega beitt gegn lágtekjufólki og innflytjendum.

Willum væntir aðgerða á næstu dögum

Jóhann spurði svo Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hvað hann væri að gera til að sporna gegn þessari þróun.

„Ætlar ráðherra ekkert að gera með tillögur frá starfshópi um vottorðagerð sem bárust hérna fyrir einu og hálfu ári? Hvað er eiginlega að frétta af þessum málum? Til hvaða aðgerða ætlar hæstvirtur heilbrigðisráðherra að grípa til til þess að heilbrigðisstarfsfólk geti varið minni tíma í skriffinnsku og meiri tíma í að sinna sjúklingum?“

Willum þakkaði Jóhanni fyrir að vekja athygli á málinu og sagði að það væri verið að vinna með tillögur úr fyrrnefndri skýrslu. Sagði hann góð samtöl vera í gangi við Félag íslenskra heimilislækna og heilsugæsluna í þeim tilgangi að auka skilvirkni og þjónustu við viðskiptavini. Þá kvaðst hann vænta aðgerða á næstu dögum.

„Meðal þess sem verið hefur mjög hávær krafa um eru tilvísanir barna og við erum með þetta í skoðun og eins tillögur sem eru núna til umfjöllunar hjá félagi heimilislækna, hjá heilsugæslunni, hjá þeim aðilum sem eru að sinna þjónustunni. Ég vænti þess að bara á allra næstu dögum getum við raungert þær aðgerðir sem standa til.

Þær eru einmitt til þess fallnar og hugsaðar í þeim tilgangi að auka skilvirkni í kerfinu, að það geti betur flætt á milli þjónustustiga og dregið þannig úr álaginu að, einmitt eins og hv. þingmaður sagði, við getum nýtt til að mynda þjónustuna og sérfræðiþekkinguna meir og betur með viðskiptavininum, með sjúklingnum,“ sagði Willum á Alþingi í dag.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Eru þetta beiðnir sem er verið að misnota í massavís?“

Jóhann steig aftur upp í pontu Alþingis og kvaðst engu nær um það hvað nákvæmlega verði gert til að draga úr sóun og skriffinnsku í heilsugæsluþjónustu. Hann sagði að reglugerð um læknisvottorð hafi ekki verið uppfært frá árinu 1991 á sama tíma og lagaumhverfið hafi að öðru leyti breyst.

Hann kallaði eftir því að kerfið yrði að einhverju leyti samræmt því sem fyrirfinnist í Svíþjóð, þar sem meðal annars vinnuveitendur og skólar geta ekki farið fram á læknisvottorð nema veikindi standi yfir í meira en viku.

„Hvers vegna eru heilsugæslulæknar til dæmis gerðir að hliðvörðum við úthlutun á fullorðinsbleium? Hver er ávinningurinn? Eru þetta beiðnir sem er verið að misnota í massavís? Hver er ávinningurinn af þessu? Verður þessu breytt á næstu dögum, hæstvirtur ráðherra? Og hvenær verður úreltu og handónýtu sjúkraskrárkerfi skipt út fyrir nýtt kerfi sem uppfyllir kröfur 21. aldar?“ spurði Jóhann.

Sjúkraskrárkerfið í fýsileikakönnun

Willum sagði að sjúkraskrárkerfið sé í skoðun og í fýsileikakönnun þar sem er til skoðunar hvort að skipta eigi kerfinu alfarið út eða halda áfram með það. Þá kvaðst hann vænta þess að á næstu dögum yrðu kynntar breytingar á reglugerð um vottorð í þeim tilgangi að létta álagið.

„Í ráðuneytinu og til umfjöllunar núna hjá heilsugæslunni og læknunum og starfsfólkinu er endurskoðun á kröfu um tilvísun fyrir börn á aldrinum 2–18 ára í þeim tilgangi að létta álagið. Það er mjög mikið umfang og við yrðum líka að leita leiða með barnalæknum um hvernig það geti létt álagið.

Við erum líka að meta, eins og háttvirtur þingmaður kom inn á, tiltekin vottorð, einföldun á þeim, og að breyta þessari reglugerð sem háttvirtur þingmaður vísaði hér til. Þannig að við yrðum að skoða öll þessi vottorð. Ég reikna með því að á næstu dögum gerum við breytingar á reglugerðinni í þeim tilgangi að létta álagið,“ sagði Willum.

Þá nefndi Willum að lokum að varðandi sjúkraþjálfara þá séu fyrstu sex skiptin í boði án tilvísana frá heimilislækni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert