Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði afskipti af dæmdum barnaníðingi í Dalslaug í Úlfarsárdal fyrr í dag. Sótti hann laugina á skólatíma en maðurinn sem um ræðir hefur hlotið dóm fyrir að nauðga þroskaskertum unglingsdreng og fyrir vörslu á tugum þúsunda barnaklámmynda.
Í bréfi sem var sent á foreldra í Ingunnarskóla er staðfest að lögregla hafi haft afskipti af manninum í dag.
Í bréfi sem skólastjóri Dalskóla sendi á foreldra áður en lögreglan hafði afskipti af manninum kom fram að maðurinn spjalli reglulega við drengi í skólasundi.
„Uppgötvast hefur að í sundlaugina á skólasundstíma í 7. bekk, kemur reglulega maður, sem leitar leiða til að spjalla við drengi í skólasundi, um allt milli himins og jarðar. Þessi maður er dæmdur kynferðisbrotamaður. Hann hefur afplánað sinn dóm,“ segir Hildur í pósti á foreldra.
Vísir greindi fyrst frá bréfi skólastjóra Dalskóla.
Þá kom fram í bréfi skólastjóra Dalskóla að næst þegar maðurinn myndi koma yrði hann kallaður inn til forstöðumanns, ásamt skólastjórnanda og kallað á lögregluna. Með því væri reynt að fæla manninn frá sundlauginni.
Eins og fyrr segir þá sótti maðurinn í dag enn og aftur laugina og þá var þetta verkferli virkjað. Lögreglan hafði afskipti af manninum.
Samkvæmt heimildum mbl.is þá er um að ræða mann á sjötugsaldri sem var árið 2010 dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir að hafa tælt dreng þegar hann var 13-15 ára gamall til kynmaka með því að notfæra sér þroskaskerðingu hans, reynsluleysi af kynlífi og tölvufíkn.
Árið 2015 var maðurinn dæmdur í tveggja ára og átta mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir vörslu á tugum þúsunda barnaklámmynda og brot á vopnalögum. Alls fundust 45.236 ljósmyndir og 155 hreyfimyndir sem sýndu börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt í fórum hans.