Tómas Kristjánsson, formaður Rafbílasambands Íslands, telur engar líkur á því að Ísland verði rafbílavætt fyrir 2030, eins og stefna stjórnvalda segir til um. Tómas kennir aðgerðaleysi þar um.
„Það þarf að bæta við 100 þúsund rafbílum í viðbót á næstu sex árum ef ná á þessum markmiðum. Nú er útlit fyrir að um það bil þúsund rafbílar seljist á þessu ári. Á þá að selja 99 þúsund bíla á næstu fimm árum?“
Rætt var við Tómas vegna þess ástands sem skapaðist á hleðslustöð N1 í Staðarskála um páskahelgina, þar sem slegist var um þær fáu hleðslustöðvar sem virkuðu. Hér kennir Tómas stefnuleysi stjórnvalda um.
„Ég hef bent á það lengi að rafbílasala er komin langt fram úr innviðauppbyggingu í landinu. Það er til dæmis athyglisvert þegar úthlutanir úr orkusjóði eru skoðaðar, þá er verið að eyða miklu meira fé í innviði fyrir vetnisframleiðslu heldur en innviði fyrir hleðslu rafbíla,“ segir hann.
„Ég tel að fáir séu að biðja um meira vetni en að allir séu að biðja um meiri hleðslu fyrir rafbíla úti á landi.“
Tómas bendir á að olíufélögin eigi verðmæta innviði um allt land, lóðir á besta stað í þjóðvegakerfinu. Þau skorti aftur á móti rafmagn og tengingar.
Félögin þurfi að greiða tugmilljóna kostnað við það að koma upp einni hleðslutengingu, auk þess að greiða ákaflega hátt árgjald fyrir tenginguna.
„Þau gjöld fara til RARIK, sem er 100% í eigu ríkisins. Af hverju er orkusjóður ekki notaður til þess að greiða þetta? Þá væri ríkið í raun að taka fé úr einum vasa og setja í annan hjá sér. Það myndi ekki skipta ríkið neinu máli en skipta öllu fyrir orkusalana sem eru að reyna að byggja upp kerfið á landsbyggðinni.“
Tómas kveðst vera vonsvikinn með aðgerðaleysi stjórnvalda við að fylgja eftir settum markmiðum um orkuskipti bílaflotans. Hann bendir á þann gríðarlega samdrátt sem orðið hefur í sölu rafbíla, sem er um 80% minni heldur en í fyrra.
Kaupendur virðist vera að missa áhugann á að skipta yfir í rafbíla þegar þeir merkja aðgerðarleysi stjórnvalda.
„Af hverju á fólk að fara inn í bílaumboð til að kaupa sér rafbíl, þegar hægt er að fá á sama stað sparneytinn dísilbíl sem er 1-2 milljónum króna ódýrari? Dísilbíllinn kemur farþegum leikandi milli Reykjavíkur og Akureyrar á einum tanki og bílstjórinn þarf ekki að slást við alla hina bílstjórana um sex hleðslustöðvar í Staðarskála, sem gætu svo verið hálfbilaðar.“
Tómas segir líka olíufélögin ekki fara í frekari uppbyggingu hleðsluinnviða ef sala rafbíla minnkar. Þau geti þá áfram selt olíu eins og hingað til.
„Það eru allir tilbúnir að aðstoða stjórnvöld í markmiði sínu, með því að breyta neysluhegðun, en stjórnvöld eru ekki að grípa boltann og framkvæma. Það er ekki þeim að þakka að hér eru komnir 30 þúsund rafbílar á göturnar,“ segir Tómas að lokum.