„Rafvæðing bílaflotans mun aldrei nást fyrir 2030“

Tómas Kristjánsson, formaður Rafbílasamband Íslands.
Tómas Kristjánsson, formaður Rafbílasamband Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tóm­as Kristjáns­son, formaður Raf­bíla­sam­bands Íslands, tel­ur eng­ar lík­ur á því að Ísland verði raf­bíla­vætt fyr­ir 2030, eins og stefna stjórn­valda seg­ir til um. Tóm­as kenn­ir aðgerðal­eysi þar um.

„Það þarf að bæta við 100 þúsund raf­bíl­um í viðbót á næstu sex árum ef ná á þess­um mark­miðum. Nú er út­lit fyr­ir að um það bil þúsund raf­bíl­ar selj­ist á þessu ári. Á þá að selja 99 þúsund bíla á næstu fimm árum?“

Raf­bíla­sala kom­in fram úr innviðaupp­bygg­ingu

Rætt var við Tóm­as vegna þess ástands sem skapaðist á hleðslu­stöð N1 í Staðarskála um páska­helg­ina, þar sem sleg­ist var um þær fáu hleðslu­stöðvar sem virkuðu. Hér kenn­ir Tóm­as stefnu­leysi stjórn­valda um.

„Ég hef bent á það lengi að raf­bíla­sala er kom­in langt fram úr innviðaupp­bygg­ingu í land­inu. Það er til dæm­is at­hygl­is­vert þegar út­hlut­an­ir úr orku­sjóði eru skoðaðar, þá er verið að eyða miklu meira fé í innviði fyr­ir vetn­is­fram­leiðslu held­ur en innviði fyr­ir hleðslu raf­bíla,“ seg­ir hann.

„Ég tel að fáir séu að biðja um meira vetni en að all­ir séu að biðja um meiri hleðslu fyr­ir raf­bíla úti á landi.“

Kostnaðarsamt að koma upp hleðslu­stöð á lands­byggðinni

Tóm­as bend­ir á að olíu­fé­lög­in eigi verðmæta innviði um allt land, lóðir á besta stað í þjóðvega­kerf­inu. Þau skorti aft­ur á móti raf­magn og teng­ing­ar.

Fé­lög­in þurfi að greiða tug­millj­óna kostnað við það að koma upp einni hleðslu­teng­ingu, auk þess að greiða ákaf­lega hátt ár­gjald fyr­ir teng­ing­una.

„Þau gjöld fara til RARIK, sem er 100% í eigu rík­is­ins. Af hverju er orku­sjóður ekki notaður til þess að greiða þetta? Þá væri ríkið í raun að taka fé úr ein­um vasa og setja í ann­an hjá sér. Það myndi ekki skipta ríkið neinu máli en skipta öllu fyr­ir orku­sal­ana sem eru að reyna að byggja upp kerfið á lands­byggðinni.“

Rök­in fyr­ir raf­bíla­kaup­um veik­ari nú

Tóm­as kveðst vera von­svik­inn með aðgerðal­eysi stjórn­valda við að fylgja eft­ir sett­um mark­miðum um orku­skipti bíla­flot­ans. Hann bend­ir á þann gríðarlega sam­drátt sem orðið hef­ur í sölu raf­bíla, sem er um 80% minni held­ur en í fyrra.

Kaup­end­ur virðist vera að missa áhug­ann á að skipta yfir í raf­bíla þegar þeir merkja aðgerðarleysi stjórn­valda.

„Af hverju á fólk að fara inn í bílaum­boð til að kaupa sér raf­bíl, þegar hægt er að fá á sama stað spar­neyt­inn dísil­bíl sem er 1-2 millj­ón­um króna ódýr­ari? Dísil­bíll­inn kem­ur farþegum leik­andi milli Reykja­vík­ur og Ak­ur­eyr­ar á ein­um tanki og bíl­stjór­inn þarf ekki að slást við alla hina bíl­stjór­ana um sex hleðslu­stöðvar í Staðarskála, sem gætu svo verið hálf­bilaðar.“

Bolt­inn nú hjá stjórn­völd­um

Tóm­as seg­ir líka olíu­fé­lög­in ekki fara í frek­ari upp­bygg­ingu hleðslu­innviða ef sala raf­bíla minnk­ar. Þau geti þá áfram selt olíu eins og hingað til.

„Það eru all­ir til­bún­ir að aðstoða stjórn­völd í mark­miði sínu, með því að breyta neyslu­hegðun, en stjórn­völd eru ekki að grípa bolt­ann og fram­kvæma. Það er ekki þeim að þakka að hér eru komn­ir 30 þúsund raf­bíl­ar á göt­urn­ar,“ seg­ir Tóm­as að lok­um. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert