„Bara eitthvað kusk sem snertir mig ekki“

Andlit Steinunnar Ólínu er notað í auglýsingunum.
Andlit Steinunnar Ólínu er notað í auglýsingunum.

Engu líkara er en að einn forsetaframbjóðenda, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikkona, hafi ákveðið að söðla um og auglýsa óskilgreinda vöru sem lofar þyngdartapi.

Þegar betur er að gáð má aftur á móti sjá að forsetaframbjóðandinn virðist fórnarlamb gervigreindar sem notar andlit þekkt fólks til að reyna að gabba fólk til að kaupa snákaolíu á netinu.

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir.
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir. Ljósmynd/Þjóðleikhúsið

Vinir og vandamenn höfðu áhyggjur

Steinunn segist aðspurð engar áhyggjur hafa af þessu en fjölmargir velviljaðir vinir og vandamenn hafi bent henni á þetta.

„Þetta truflar mig bara ekki neitt. Ég held að allir sjái að þetta er eitthvað gervigreindardæmi og notast er við google translate þannig að þetta er á einhverju mjög dularfullu máli. Því er þetta bara eitthvað kusk sem snertir mig ekki,“ segir Steinunn Ólína.

Hún segir þetta til marks um það hvernig heimurinn er orðinn og best sé að hugsa með sjálfum sér að þetta skipti ekki máli.

Hún segir að skilaboðin skipti tugum sem hún fékk í gær.

„Þetta var frá fólki sem vill mér vel og hafði af þessu áhyggjur. En ég held að hver einasta heilvita manneskja sjái í gegnum þetta,“ segir Steinunn Ólína.

Þyngd fólks utan áhugasviðs Steinunnar

„Kannski er bara best að líta á þetta sem ókeypis auglýsingu fyrir mig. Ef einhver hefur verið að gera mér óleik þá hefur það í það minnsta misheppnast,“ segir Steinunn Ólína í gamansömum tón.

„Ef einhver hefur áhyggjur af því hvað ég er þung þá get ég sagt frá því að ég hef ekki stigið á vigt í marga mánuði. Þyngd fólks er utan míns áhugasviðs.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert