„Ég hef enga trú á þeirri stefnu“

„Ég er þeirrar skoðunar að það sé mun betri pólitískt stefna fram á við að byggja á því að auka frelsi fólks og efla kraftinn í atvinnulífinu með því að draga úr opinberum álögum, heldur en stefnan sem ég heyri hljóma dálítið í þinginu sem er sú að við munum aldrei ná markmiðum okkar nema að hækka skatta og við verðum að sammælast um að auka álögur á fólk og fyrirtæki. Ég hef enga trú á þeirri stefnu,“ sagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra sem var gestur í Dagmálsþætti Morgunblaðsins. 

Bjarni segir mikilvægt að nýta tímann vel fram að næstu kosningum til að byggja ríkissjóð að nýju upp eftir áföll.

Vilja kynna myndarleg áform um skattalækkanir

„Þannig að við gætum þegar næst verður gengið til kosninga kynnt myndarleg áform um skattalækkanir inn í framtíðna.“

Bjarni segir að það hafi reynst honum vel að hugsa svona mál fram í tímann og taka í skrefum. „Þetta þarf ekki alltaf að gerast allt saman næsta 1. janúar. Frá fyrsta degi næsta fjárlagaárs.“

Hann segir að skattalækkanir muni verða á meðal áherslumála Sjálfstæðisflokksins fyrir næstu alþingiskosningar.

Skilja meira eftir hjá vinnandi fólki

„Það þarf ekki að þýða að þær komi allar til framkvæmda á fyrsta degi kjörtímabilsins heldur að við notum kjörtímabilið til þess að létta álögum á fólki og fyrirtækjum þar sem við teljum að það sé skynsamlegt. Til þess að örva, hvetja, skapa og skilja meira eftir hjá vinnandi fólki.“

Þá nefnir Bjarni í viðtalinu að það eigi að létta undir með millitekjufólki með því að draga úr jaðarsköttum.  

Áskrifendur Morgunblaðsins geta horft á þáttinn í heild sinni hér fyrir neðan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert