Katrín mælist áfram með mesta fylgið

Katrín, Baldur og Jón Gnarr mælast með mest fylgi í …
Katrín, Baldur og Jón Gnarr mælast með mest fylgi í könnun Gallup. Samsett mynd/Eggert/Kristinn

Katrín Jakobsdóttir mælist með 30% stuðning í nýjum þjóðarpúlsi Gallups og mælist Baldur Þórhallsson með 26% fylgi. Jón Gnarr mælist með 18% fylgi en allir aðrir frambjóðendur mælast með 7% fylgi eða minna.

Ekki er tölfræðilega marktækur munur á fylgi Katrínar og Baldurs. Fólk er líklegra til þess að kjósa Katrínu ef það er eldra á sama tíma og fólk sem er yngra er líklegra til að kjósa Jón Gnarr.

Halla Tómasdóttir mælist með 7% fylgi en Arnar Þór Jónsson og Halla Hrund Logadóttir mælast bæði með 4% fylgi.

Steinunn og Ásdís með 2% fylgi

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir og Ásdís Rán Gunnarsdóttir mælast með 2% fylgi og Ástþór Magnússon með 1% fylgi.

Þetta er fyrsta könnun Gallup um fylgi frambjóðenda síðan Katrín tilkynnti framboð þann 5. apríl. Könnunin var framkvæmd dagana 5. til 11. apríl.

1731 manns voru í úrtaki hjá Gallup og var þátttökuhlutfall 46,4 prósent. 87 prósent þátttakenda tóku afstöðu.

Ekki ólíkt niðurstöðum Maskínu

Maskína birti könnun í vikunni sem var ekki með mjög ólíkar niðurstöður.

Þar mældist Katrín með tæplega 33% fylgi en Baldur með 26,7% fylgi. Aðrir frambjóðendur mælast með álíka mikið í könnun Gallup og Maskínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka