„Löggjafinn hefur tekið sínar ákvarðanir“

Bjarkey Olsen nýr sjávarútvegs- og matvælaráðherra.
Bjarkey Olsen nýr sjávarútvegs- og matvælaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og matvælaráðherra, segir gagnrýni á ný búvörulög beinast að þinginu. Matvælaráðuneytið geti ekki beitt sér í málinu enda sé það statt hjá þinginu auk þess sem löggjafinn hafi að hennar sögn tekið sínar ákvarðanir. 

Bjarkey ræddi við blaðamann mbl.is að loknum fyrsta ríkisstjórnarfundi hennar sem haldinn var í Skuggasundi í morgun. 

Ráðuneytið telur ekki ástæðu til þess að grípa inn í

Spurð hvort hún telji að bréfið sem matvælaráðuneytið sendi atvinnuveganefnd á mánudag, þar sem ráðuneytið gagnrýndi breytingar og vinnubrögð nefndarinnar í tengslum við frumvarp að lögunum, gangi í berhögg við stjórnskipun landsins, segist hún í sjálfu sér ekki hafa skoðun á því. 

„Málið var afgreitt á Alþingi undir leiðsögn Alþingis og ráðuneytið hyggst alla vega ekki grípa inn í að svo stöddu, við teljum ekki ástæðu til þess. Ef það reynist ástæða til þess þá auðvitað þarf bara að skoða það, en málið er auðvitað hjá þinginu.“ 

Má segja að með bréfinu hafi matvælaráðuneytið verið að segja þinginu fyrir verkum?

„Nei, alls ekki. Það er ekkert óvanalegt að ráðuneyti viðri áhyggjur sínar, hafi það þær, og það var gert að þessu sinni. Eins og ég segi – það er bara hjá Alþingi og þar verður að taka það upp hvort nefndin hyggst taka það upp eða gera eitthvað við það. Við ætlum alla vega ekki að grípa inn í að svo stöddu.“

Athugasemdirnar beinast fyrst og fremst að þinginu

Aðspurð segir hún bréfið ekki verða dregið til baka enda komið á málaskrá Alþingis. 

Spurð hvernig hún hyggist bregðast við þeirri hörðu gagnrýni sem hefur komið á lögin, m.a. frá Alþýðusam­band­inu, Neyt­enda­sam­tök­un­um og Fé­lagi at­vinnu­rek­enda, svarar hún því til að þær athugasemdir beinist fyrst og fremst að þinginu. 

„Eins og ég segi – málið er statt hjá Þinginu. Löggjafinn hefur tekið sínar ákvarðanir og ráðuneytið ætlar ekki að grípa inn í það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert