Það eru margir boltar á lofti hjá Ástráði Haraldssyni ríkissáttasemjara. Enn á eftir að semja við stór stéttarfélög á borð við BSRB, Læknafélagið, Blaðamannafélag Íslands og BHM.
Þá vísuðu Sameyki, stéttarfélag í almannaþjónustu, og Félag flugmálastarfsmanna ríkisins kjaradeilu sinni til ríkissáttasemjara í vikunni eftir árangurslausar viðræður.
„Það eru alls konar mál í gangi en það mætti að mínu mati allt ganga hraðar,“ segir Ástráður við mbl.is en samningaviðræður við BSRB hafa til að mynda staðið yfir síðustu vikurnar.
Nítján aðildarfélög BSRB taka þátt í kjaraviðræðunum og telja félagsmenn um 24 þúsund.
Ástráður segir að almennt ríki ágætur andi og friður. Viðræðurnar séu misjafnlegar flóknar og í mörgum tilfellum séu alls konar atriði sem þurfi að taka fyrir sem séu fyrir utan þessi venjulegu meginatriði kjarasamninga.
„Það eru margvíslegar viðræður í gangi milli einstakra félaga bæði innan BHM og BSRB við launagreiðendur sem við erum ekki að stýra,“ segir Ástráður.
Í dag fundar ríkissáttasemjari með Læknafélaginu og Blaðamannafélaginu. Í tilfelli Blaðamannafélags Íslands var settur sérstakur ríkissáttasemjari vegna vanhæfis Ástráðar en sonur hans er lögmaður Blaðamannafélagsins og hefur tekið þátt í viðræðum fyrir þess hönd.