Sara Lind settur orkumálastjóri í fjarveru Höllu

Sara Lind Guðbergsdóttir (t.v.) hefur verið sett í embætti orkumálastjóra, …
Sara Lind Guðbergsdóttir (t.v.) hefur verið sett í embætti orkumálastjóra, en Halla Hrund Logadóttir er í leyfi vegna forsetaframboðs. Samsett mynd

Sara Lind Guðbergsdóttir hefur tímabundið verið sett í embætti orkumálastjóra og mun hún gegna starfinu til 2. júní Þessi skipan var kynnt á ríkisstjórnarfundi í morgun.

Sara Lind er lögfræðingur að mennt og hefur m.a. starfað hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu og sat í samninganefnd ríkisins á þeim tíma. Þá hefur hún starfað hjá Ríkiskaupum síðast sem settur forstjóri stofnunarinnar.

Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri, er komin í leyfi frá störfum vegna framboðs hennar til embættis forseta Íslands.

Í minnisblaði sem lagt var fyrir ríkisstjórn af þessu tilefni kemur meðal annars fram að úttekt hafi verið gerð á starfsemi Orkustofnunar og starfsemin endurmetin, þar sem áhersla var lögð á að meta áhrif þróunar undanfarinna þriggja ára á núverandi rekstrargrundvöll stofnunarinnar.


Meðal annars var leitast við að svara því hvort stofnunin sé í stakk búin að sinna öllum lögbundnum verkefnum sínum, auk annarra sem hafa fylgt áherslubreytingum stjórnvalda og einnig hvaða áhrif sameining við Umhverfisstofnun, að undanskildu náttúruverndarhluta stofnunarinnar, geti haft á rekstrarforsendur í einstökum málaflokkum.

Drög að úttektarskýrslu á starfsemi Orkustofnunar er nú til skoðunar í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu. Tvær af helstu niðurstöðum skýrslunnar eru annars vegar að yfirfara þurfi rekstur og rekstrargrundvöll raforkueftirlits og ganga úr skugga um hvort tekjur nægi fyrir útgjöldum og hins vegar að leysa tímabundinn afgreiðsluhalla leyfisumsókna vegna auðlindanýtingar.

Í minnisblaðinu kemur fram að ráðuneytið sé að undirbúa sérstakt átaksverkefni um meðferð og afgreiðslu umsókna leyfa til nýtingar auðlinda sem þegar liggja fyrir hjá Orkustofnun. Markmiðið sé að vinna kerfisbundið að því að afgreiða allar umsóknir sem teljast vera afgreiðsluhæfar og koma á eðlilegu jafnvægi á afgreiðslu leyfa miðað við fyrirliggjandi umsóknir.

Gert er ráð fyrir að vinnan hefjist eins fljótt og kostur er og að henni fylgt eftir með mánaðarlegu stöðuyfirliti frá Orkustofnun þar sem greint er frá framvindu og hugsanlegum atvikum sem upp hafi komið og gætu haft áhrif á endanleg markmið.

Átaksverkefnið tengist heildstæðri úttekt og endurmati á ferli við leyfisveitingar sem nýlega var sett af stað og kynnt í ríkisstjórn, en það snýst um skilvirkni leyfisveitinga á sviði umhverfis- og orkumála með endurhönnun ferla, endurskoðun regluverks, stafrænum lausnum og breytingum á verklagi.

Verkefni Söru Lindar er fylgja eftir fyrrgreindum tveimur verkefnum, segir í minnisblaðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka