Á Akranesi stendur nú yfir söfnun undirskrifta þar sem skorað er á bæjaryfirvöld að færa starfsemi sína í Landsbankahúsið við Akratorg.
Yfirskrift verkefnisins er Fyrsta hjálp og hjartahnoð fyrir miðbæinn en þeim sem að standa þykir sem meira líf vanti á miðbæjarsvæðið.
Verslunum og veitingahúsum þar hafi fækkað á undanförnum árum og miðbærinn sé ekki ekki fyrsti kostur þess sem hyggst fara af stað með verslun eða veitingarekstur á Akranesi.
Við blasi því að nýta gamla Landsbankahúsið, þriggja hæða byggingu sem Akurnesingar eiga og lítil og stopul starfsemi hefur verið í undanfarin ár.
„Við viljum meira líf við Akratorg, sem er hjarta bæjarins,“ segir Ólafur Páll Gunnarsson útvarpsmaður sem er forsprakki þessa verkefnis. Hann býr við torgið og hefur á undanförnum árum látið til sín taka í ýmsum málum til eflingar Skaganum.
Síðdegis í gær, föstudag, höfðu alls 540 manns skrifað nafn sitt rafrænt á undirskriftalistana, sem verða uppi á island.is fram á mánudag. Einnig liggja undirskriftarblöð frammi á völdum stöðum á Akranesi, svo sem í verslunum.
Frekari umfjöllun má lesa í Morgunblaðinu í dag, laugardag.