Minnsti hiti landsins mældist við Mývatn síðustu nótt eða -21,3 gráður. Birgir Örn Höskuldsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að dregið hafi hratt úr fimbulkuldanum og að strax í morgunsárið hafi mælst um -8 gráðu frost.
„Þetta hefur verið mjög grunnur kuldi eins og við segjum.“ Telur Birgir ennfremur að þetta sé ekkert óvenjulegt á þessu landsvæði þrátt fyrir að óðum styttist í sumarið.
Birgir segir að sæmilega kalt loft hafi legið yfir, hægur vindur og léttskýjað: „Þá getur kólnað mjög skyndilega eins og við Mývatn, þar sem er lægð í landslaginu.“
„Þá þarf voða lítið að breytast ef vind hreyfist aðeins þá blandast þessi kuldi upp og þá dregur mjög hratt úr frostinu,“ segir hann.
Hann segir svokallaðan grunnan kulda við Mývatn vera nokkuð algengan ef aðstæður leyfa:
„Það er í sjálfu sér ekki fréttnæmur atburður að það verði svona kalt á Mývatni við þessar aðstæður.“
Vænta má norðan- og norðvestanáttar í nótt með 8 til 15 metrum á sekúndu og éljum víða. Bjart verður á landinu fyrir sunnan á morgun og frost víða 0 til 5 stig, en frostlaust sunnanlands.
Hins vegar mega Mývetningar búast svipuðu veðri á morgun og var í eða 5-8 gráðu frosti. Nóttin ætti þó að óbreyttu ekki að bera með sér sama kulda og var liðna nótt.