Halla Hrund Logadóttir forsetaframbjóðandi er hrærð eftir að hús Máls og menningar fylltist fyrr í dag á opnum fundi hennar.
„Ég er ótrúlega hrærð eftir frábærar móttökur. Það var fullt hús af fólki og mikil stemning fyrir ferðalaginu fram undan,“ segir hún og bætir við að hún sé þakklát fyrir viðtökurnar.
Halla flutti ræðu um það hvers vegna hún ákvað að bjóða sig fram og hver hennar sýn sé á hlutverk forsetans í íslensku samfélagi og á alþjóðavettvangi.
Halla kveðst ætla ferðast um landið næstu vikurnar til að eiga samtal við fólkið í landinu. Hún hvetur fólk á netheimum til að fylgja henni á samfélagsmiðlum til að sjá hvar hún kemur við á næstunni.
„Ég hef fundið svo skýrt á þeim fundum sem við höfum átt hversu sterkur samhljómur er á meðal fólks um þau gildi sem við erum að tala fyrir - gildi þátttöku og samvinnu. Það eru gildin sem hafa byggt upp landið, sama hvort við erum að horfa á hitaveituvæðinguna, jafnréttisbaráttuna eða náttúruvernd.“
Hún segir að boðskapurinn sem hún standi fyrir sér sá að landsmenn þurfi að vera saman í því að móta framtíðina.
„Við þurfum að standa saman að framtíðinni, okkur má ekki standa á sama um hana. Tækifærin eru svo sannarlega okkar og það eru tækifærin sem ég er svo spennt að ræða við landsmenn alls staðar að á næstu vikum. Þannig þetta verður líf og fjör,“ segir Halla.
Spurð hver lykillinn sé fyrir hana til að sigra þessar kosningar segir hún grundvallaratriði vera að hitta sem flesta og ná að hreyfa við hjörtum landsmanna. Hún kveðst ganga bjartsýn inn í næstu vikurnar.
„Það er vor í lofti og við förum bjartsýn inn í næstu vikurnar og hlökkum bara til.“