Fulltrúar meirihlutans í borgarstjórn felldu tillögu Sjálfstæðisflokksins um að laun nemenda Vinnuskóla Reykjavíkur hækki frá og með næsta sumri í samræmi við breytingar á launavísitölu frá því að síðasta launahækkun tók gildi vorið 2022.
Tillagan var felld á fundi umhverfi- og skipulagsráðs Reykjavíkur þann 10. apríl. Aftur á móti var falist á hækkun launa um 7,8%, en hækka þyrfti launin um 14% til að þau héldu verðgildi sínu miðað við síðustu launahækkun árið 2022.
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir hækkunina fela í sér beina kjararýrnun.
„Kjaramál hafa verið mikið til umræðu og þetta eru yngstu starfsmenn borgarinnar sem vinna mjög mikilvæg störf í þágu fegrunar, umhirðu og viðhaldi borgarinnar,“ segir Kjartan.
Hann rifjar upp þá óánægðu sem skapaðist í fyrra þegar Reykjavíkurborg ákvað að halda launum nemenda í Vinnuskóla Reykjavíkur óbreyttum. Var sú ákvörðun tekin eftir að nemendur hófu störf.
„Þau voru búin að vinna í nokkra daga þegar það var tilkynnt að það yrði engin hækkun. Það yrði bara óbreytt krónutala frá fyrra ári sem með verðbólgu felur í sér beina kjararýrnun.“
Kjartan segir að kjör nemendanna hafi verið tekin fyrir á árlegum fundi Ungmennaráðs Reykjavíkur og borgarstjórnar síðastliðinn febrúar:
„Þá var þetta þeirra fyrsta mál á dagskrá, þar sem þau fjölluðu um að þeim þætti þetta mikið óréttlæti og að borgin væri að notfæra sér það að þau væru ekki með samningsrétt eða með hefðbundið verkalýðsfélag .“
Hann segir að nemendurnir hafi lagt til að launin yrðu hækkuð í samræmi við vísitöluna fyrir komandi sumar. Hann segir að vel hafi verið tekið í tillögu nemendanna á fundinum, en að við meðferð tillögunnar hafi greinilega ekki verið hlustað á nemendurna.
„Mér finnst þetta vera óréttlátt. Í fyrsta lagi tel ég að þau eigi að fá hærri laun fyrir vinnuna og að færa ætti þetta í samræmi við vísitöluna. Þetta er líka viðkvæmur hópur og þá er spurning hvernig borgin kemur fram við þennan hóp – yngstu starfsmenn borgarinnar. Þetta er oft þeirra fyrsta reynsla af vinnumarkaði,“ segir hann.