Á bilinu 25-30 slökkviliðsmenn hafa barist við sinueld í búgarðabyggðinni á milli Selfoss og Eyrarbakka í rúmlega klukkutíma. Verið er að slökkva í eldglæðum og er bruninn orðinn hættulaus.
Þetta segir Halldór Ásgeirsson, aðalvarðstjóri Brunavarna Árnessýslu, í samtali við mbl.is.
„Við erum að vinna í því að slökkva í glæðum núna þannig þetta er orðið hættulaust. Það var fyrst og fremst hætta af reyk hérna og svo var gríðarlega hröð útbreiðsla í þessu,“ segir Halldór og bætir við að bruninn hafi ekki verið fjarri næstu húsum.
Sinueldurinn nær yfir þrjá hektara. Slökkviliðinu barst tilkynning um brunann klukkan 14.40 og er enn að störfum.