Bjartsýnn á að breytingar nái í gegn

Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Samsett mynd

„Við myndun þessarar ríkisstjórnar tók hæstvirtur forsætisráðherra ítrekað fram að hún myndi ekki hvað síst snúast um þrjú mál sem væru útlendingamál, orkumál og efnahagsmálin.“

Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, undir liðnum óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra á Alþingi í dag þar sem hann spurði Bjarna Benediktsson forsætisráðherra hvað ríkisstjórnin hyggist gera í útlendingamálum.

„Stendur til kannski að klára það sem var kynnt sem sameiginleg stefna ríkisstjórnarinnar í útlendingamálum, sem var nú fyrst og fremst listun á stefnu VG og svo þetta mál, þetta ókláraða mál hæstvirts dómsmálaráðherra? Er það allt og sumt?,“ spurði Sigmundur.

Bjarni sagði að frumvarp væri í þinginu sem muni meðal annars gera mönnum torveldara en átt hefur við undanfarin ár að sækjast eftir fjölskyldusameiningu.

„Fleiri breytingar er að finna í því frumvarpi og já, við hyggjumst klára þau mál eins og þau liggja fyrir þinginu þótt þinglega meðferðin standi auðvitað yfir og geti leitt til þess að einhverjar minni háttar breytingar verði á málinu,“ sagði Bjarni í svari sínu.

Góð samstaða í þinginu

Bjarni segist ekki skynja annað en það sé líka góð samstaða í þinginu, jafnvel langt út fyrir stjórnarflokkana til að klára málið og hann er bjartsýnn um að breytingar nái í gegn.

„Það sem við þurfum fleira að gera í hælisleitendamálunum sérstaklega er að fylgjast með þróuninni í öðrum löndum sem er á hreyfingu. Það er verið að aðlaga löggjöfina á Norðurlöndunum að hinum nýja veruleika sem við búum við í dag. Þennan veruleika horfðum við ekki fram á þegar þverpólitískt samstarf leiddi til almennra breytinga á útlendingalöggjöfinni fyrir tæpum áratug síðan,“ sagði Bjarni ennfremur.

Bjarni segir að á endanum verði það mat dómsmálaráðherra hversu umfangsmiklar breytingar þurfi að gera og hann segist leggja á það áherslu að klára þá áfanga sem liggi nú þegar fyrir þinginu og að strax í kjölfarið verði farið í að leggja mat á þær breytingar sem séu að eiga sér stað á Norðurlöndunum.

„Við verðum að færa löggjöfina nær lágmarksviðmiðum sáttmála Sameinuðu þjóðanna í þessum efnum,“ sagði forsætisráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert