Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, gagnrýndi harðlega kostnað Landsvirkjunar vegna tveggja daga árshátíðar sem haldin á Egilsstöðum um nýliðna helgi.
Inga ræddi málið við Bjarna Benediktsson forsætisráðherra undir liðnum óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra á Alþingi í dag þar sem hún vísaði til fréttar á RÚV í hádeginu.
„Við heyrum núna í hádegisfréttum að það var haldið partí á Egilsstöðum um síðustu helgi, partí sem kostar ekki undir 100 milljónum kr., þar sem 200 starfsmenn Landsvirkjunar fengu leigða undir sig breiðþotu hjá Icelandair og flugu þangað með mökum sínum. Meðalverð á starfsmann var 500.000 kr. fyrir tveggja daga partí á Egilsstöðum,“ sagði Inga meðal annars.
Inga spurði Bjarna hvaða ásýnd væri verið senda út í samfélag sem er að bugast undir ofurvöxtum og þröngu búi hjá mörgum fyrirtækjum og heimilum í landinu.
„Eigum við virkilega að senda svona skilaboð? Hver er það sem fer með t.d. stjórn Landsvirkjunar? Er það bara forstjórinn? Er Landsvirkjun fé án hirðis? Á að reka þetta fyrirtæki bara fyrir starfsmennina eins og þeir eigi það bara sjálfir? Er það furða að manni misbjóði? Ég er eiginlega ennþá í hálfgerðu áfalli yfir þessari frétt,“ sagði Inga Sæland.
Hún sagðist búast við því að eigendur Landsvirkjunar, fólkið í landinu og fyrirtækin og heimilin í landinu hefðu jafnvel viljað sjá lækkaðan orkukostnað til sín.
Bjarni sagði í svari til Ingu að öll félög í eigu ríkisins eigi að horfa til almennu eigendastefnu ríkisins vegna félaga í eigu þess.
„Það er auðvitað verulegur tilkostnaður að efna til árshátíðar sem kostar ef rétt er hér haft eftir í kringum 100 milljónir. Þess vegna segi ég bara almennt til allra félaga í eigu ríkisins og stofnana að við viljum að gengið sé þannig fram að það sé til eftirbreytni. Það er bara svo einfalt,“ sagði Bjarni ennfremur.
Bjarni sagði vera ákveðinn blæbrigðarmun á því að leggja í langferð til Egilsstaða eða fljúga suður til Evrópu til að halda árshátíð. Hann sagði að það sé skynsamlegt af opinberum stofnunum og fyrirtækjum í eigu ríkisins að sýna hófsemd í útgjöldum af þessum toga.
Forsætisráðherra lét þess einnig getið að Landsvirkjum hafi aldrei í sögunni gengið betur en undanfarin ár, hafi aldrei greitt hærri arð til ríkisins og að fyrirtækið hafi nánast greitt upp allar sínar skuldir.