Fylgið ennþá dreift en fáir óráðnir

Allt fram til 26. apríl er þess kostur að bjóða …
Allt fram til 26. apríl er þess kostur að bjóða sig fram hafi tilskildum fjölda meðmælenda verið náð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fylgi er mjög dreift milli forsetaframbjóðenda, líkt og viðbúið er þegar svo margir vilja bjóða sig fram, en eiginleg kosningabarátta ekki hafin nema hjá stöku frambjóðendum, sem ekki vildu bíða eftir því að framboðsfrestur rynni út.

Allt fram til 26. apríl er þess kostur að bjóða sig fram hafi tilskildum fjölda meðmælenda verið náð. Af sömu ástæðu er ekki víst að allir ofangreindir frambjóðendur nái á kjörseðilinn, en þrátt fyrir að sá þröskuldur sé lágur hefur frambjóðendum gengið misvel að safna.

Hins vegar er eftirtektarvert að meðal aðspurðra í könnuninni hafa flestir þegar getað fundið frambjóðanda við sitt hæfi. Aðeins 8% vissu ekki hvern þeir vildu kjósa, en tæp 2% vildu ekki svara því. Og 85% gerðu ráð fyrir því að kjósa, sem væri alveg prýðileg kjörsókn. Hún var 76% í forsetakjörinu 2016.

Skiptist í tvö horn

Líkt og sjá má að ofan má þar gróflega skipta frambjóðendum í tvo flokka. Baldur Þórhallsson, Jón Gnarr og Katrín Jakobsdóttir eru öll með dágott fylgi og líkleg til að blanda sér í toppslaginn. Halla Hrund Logadóttir er þar töluvert á eftir, en hefur samt náð meira en 10% á skömmum tíma, svo vel má vera að hún eigi meira að sækja.

Aðrir frambjóðendur eru með minna en 5% fylgi, svo hjá þeim er brekkan nokkuð brött. Ekki síst hjá þeim sem eru með innan við 1% og nær að tala um þverhnípi en brekku.

Það verður því að telja líklegt að einhverjir frambjóðendur leggi upp laupana frekar en að leggja allt í sölurnar ef undirtektir eru ekki meiri. Það er líka ósennilegt að þeim haldist vel á fylginu ef kjósendum virðist það vera til einskis.

Fylgi annarra frambjóðenda en hinna fjögurra efstu er samtals 15%, svo þar er eftir nokkru að slægjast fyrir aðra frambjóðendur, jafnvel svo ríði baggamun á lokasprettinum. Af fyrri kosningum að dæma væri óvarlegt að gera ráð fyrir því að það fylgi skiptist jafnt milli efstu frambjóðenda. Hið sama á að líkindum við átta prósentin óráðnu.

Þar kann afstaða ólíkra hópa – eftir kyni, aldri, tekjum eða stjórnmálaafstöðu – að skipta miklu. Nánar verður grafist fyrir um slíka skiptingu á fylgi forsetaframbjóðenda í blaðinu á morgun.

Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert