Höfnuðu kröfu um að landsréttardómari víki

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Landsréttar þar sem var hafnað kröfu um að landsréttadómarinn Símon Sigvaldason víki í máli sem þrotabú Karls Wernerssonar höfðaði á hendur Jóni Hilmari Karlssyni, sem er sonur Karls.

Krafa gagnáfrýjanda um að landsréttardómarinn viki sæti í málinu var reist um meðferð einkamála. Vísað var til náins tengsl til fjölda ára á milli Karls Wernerssonar, föður gagnáfrýjanda, og systursonar dómarans.

„Það eitt að systursonur dómarans starfi hjá félagi sem er hluti af samstæðu þess félags, Toska ehf., sem mál þetta snýr að getur ekki valdið því að dómarinn verði talinn vanhæfur til meðferðarmálsins,“ sagði í úrskurði Landsréttar.

Þá kom fram í úrskurði Landsréttar að ekkert lægi fyrir um að systursonur hans hafi nokkra þá beinu og persónulegu eða fjárhagslegu hagsmuni af niðurstöðu máls þessa sem skipt gætu máli. 

Í dómi Hæstaréttar segir:

„Þegar litið er til þeirra atriða sem sóknaraðili teflir fram til stuðnings kröfu sinni, hvort sem þau eru metin hvert fyrir sig eða öll saman, verður fallist á með Landsrétti að þau geti ekki valdið því að efni séu til með réttu að draga í efa óhlutdrægni dómarans. Samkvæmt því og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.“

Í dómsorði Hæstaréttar kemur fram að Jón Hilmar Karlsson greiði þrotabúi 500 þúsund krónur í kærumálskostnað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert