Eftirlit með hitaveitulögnum mun framvegis vera í höndum eigenda fasteigna Grindavíkurbæjar, komi til rýminga vegna jarðhræringa eða eldgosa.
Eftirlit almannavarna var einungis bundið við verðmætabjörgunaraðgerðir þar sem alvarlegum frostskemmdum á fasteignum var varnað í ársbyrjun 2024.
Þetta kemur fram í tilkynningu almannavarna.
Í kjölfar verðmætabjörgunaraðgerða á vegum almannavarna undanfarnar vikur hefur farið fram vinna við lagfæringar á stofnlögnum hitaveitukerfis bæjarins. Er því unnt að auka þrýsting og rennsli á heitu vatni til bæjarins.
Almannavarnir óska nú eftir því að Grindvíkingar sæki lykla að eignum sínum. Verður hægt að nálgast þá í Kvikunni milli klukkan 9 til 20 frá miðvikudegi til föstudags og frá 9 til 17 á laugardag og sunnudag.
Komist eigendur ekki sjálfir að sækja lykla þarf að framvísa skriflegu umboði til þess að geta sótt lykla fyrir þeirra hönd.
Þess má geta að við afhendingu eigna munu pípulagningamenn á vegum almannavarna ekki opna fyrir heitt neysluvatn í lagnagrind fasteignarinnar. Sú ákvörðun er á ábyrgð fasteignareiganda.
Ef hleypa á heitu neysluvatni inn á fasteignina er mælt með því að húseigandi fái pípulagningarmann til að ástandskanna lagnirnar til þess að koma í veg fyrir og lágmarka líkur á tjóni innanhúss.