Þórdís hitti forsætisráðherra Úkraínu í Keflavík

Denys Shmyhal, forsætisráðherra Úkraínu, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, …
Denys Shmyhal, forsætisráðherra Úkraínu, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, á Keflavíkurflugvelli í dag Ljósmynd/Stjórnarráðið

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra átti fund með Denys Shmyhal, forsætisráðherra Úkraínu, í dag. Ráðherrarnir tveir hittust í flugstöðinni í Keflavík, en forsætisráðherrann úkraínski var á leið til Bandaríkjanna.

Versnandi staða á vígvellinum

Shmyhal greindi Þórdísi Kolbrúnu frá versnandi stöðu á vígvellinum í Úkraínu og vísaði einkum til skorts á skotfærum, bæði til loftvarna og fyrir stórskotalið.

Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu kemur fram að forsætisráðherrann telji framhaldið velta á hraða og getu Vesturlanda til að veita Úkraínu frekari stuðning.

Stuðningur Íslands „ófrávíkjanlegur“

Utanríkisráðherra sagði við þetta tækifæri: „Sem fyrr er stuðningur Íslands við varnarbaráttu Úkraínu ófrávíkjanlegur, enda stendur þjóðin nú í blóðugu varnarstríði við Rússland ekki bara til að verja tilverurétt sinn heldur sömuleiðis til að standa vörð um þau gildi sem við deilum.“

Hún bætti við:  „Nú sem aldrei fyrr, þegar blikur eru á lofti í baráttu þeirra við Rússa, er afar brýnt að við sýnum samstöðu okkar og stuðning í verki.“  

Stuðningur til næstu fimm ára liggur fyrir Alþingi 

Þórdís Kolbrún greindi forsætisráðherranum frá því að þingsályktunartillaga um stuðning við Úkraínu til næstu fimm ára  hafi verið lögð fram á Alþingi 19. mars síðast liðinn og yrði senn afgreidd. Þá væri góður gangur í vinnu við gerð tvíhliða samnings milli landanna um öryggissamstarf og langtímastuðning. 

Loks áréttaði utanríkisráðherra stuðning Íslands við friðarformúlu Úkraínuforseta, sem unnið hefur verið að síðan síðasta sumar, sem og fjárframlag Íslands til skotfærakaupa fyrir Úkraínu sem Tékkland hefur milligöngu um.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert