Samskiptastjóri Landsvirkjunar, Þóra Arnórsdóttir, kveðst ekki telja að kostnaður við árshátíð fyrirtækisins hafi verið óhóflegur. Það sé dýrt að halda árshátíð, sérstaklega þegar starfsmannahópurinn er búsettur víða á landinu.
„Við gerum alltaf þá kröfu að fólkið sem vinnur út á landi við það að búa til orkuna komi til Reykjavíkur og þegar þessu er snúið við þá verður allt brjálað,“ segir Þóra.
Í samtali við mbl.is kveðst hún telja að kostnaðaráætlun árshátíðarinnar hafi verið um 90 milljónir kr. en að starfsmannafélag hafi tekið þátt í greiðslukostnaði og makar greitt 8.000 krónur á haus.
Þátttakendur hafi verið um 450 en alls eru 350 starfsmenn í 330 stöðugildum innan fyrirtækisins. Um helmingur starfsfólks býr utan höfuðborgarsvæðisins að sögn Þóru.
Spurð hvort ekki sé um að ræða óhóflegan kostnað í ljósi almennrar eigandastefnu ríkisins svarar Þóra neitandi og segir mikilvægt að horfa til stærðar fyrirtækis hverju sinni og hvar starfsmenn séu búsettir.
Þykir Þóru gagnrýni á háan kostnað viðburðarins ekki taka mið af því að stór hluti starfsfólks Landsvirkjunar sé búsett út á landi enda fari öll framleiðsla fyrirtækisins fram þar. Það sé raunar tvískinnungsháttur í garð landsbyggðarfólks.
„Á hverju einasta ári þá er öllu þessu fólki komið suður til Reykjavíkur með flugvélum og rútum og tilheyrandi og í gistingu,“ segir Þóra. Það sé löngu orðið tímabært að starfsmennirnir í Reykjavík taki á sig ferðalagið á árshátíðina.
„Hrokinn er svo yfirgengilegur. Það má ekki gera neitt fyrir utan Reykjavík. Ég held að mannauðsstjórinn hafi alveg vitað að það er dýrara að fara til Egilsstaða heldur en til Brighton eða Amsterdam eða Reykjavíkur,“ segir Þóra.
Hún segir það aftur á móti meðvitaða ákvörðun hjá Landsvirkjun sem sé ætluð til þess verja peningunum í nærsamfélagi stærstu aflstöðvar Landsvirkjunar sem reiði sig að miklu leyti á ferðaþjónustu - á árstíma þar sem er lægð í ferðamennsku.
„Það væri mögulega minna umleikis ef fólk sem kæmi til Reykjavíkur. Við værum ekki að fara með þau í Vök eða Sky Lagoon. En það var gert einmitt að því við vorum fyrir austan og vildum nýta alla innviði sem þar eru.“
Hún segir að vissulega hafi það kostað sitt að halda árshátíðina á Egilsstöðum enda dýrt að ferðast, gista og borða á Íslandi. Gist hafi verið í hverri kompu í bæjarfélaginu og að sögn Þóru var Hótel Hallormsstaður opnað sérstaklega fyrir gesti árshátíðarinnar, en hótelið er vanalega lokað á þessum árstíma.
„Af hverju er alltaf miklu lengra út á land heldur en utan af landi? Við gerum alltaf þá kröfu,“ segir Þóra.
„Og þetta er í fyrsta sinn sem Sindri stöðvarstjóri í Fljótsdal gat gengið heim af árshátíðinni.“
Dagskrá árshátíðarinnar var eftirfarandi skv. svari Þóru við fyrirspurn mbl.is:
Dagskrá laugardagskvöldsins var svohljóðandi: