Boðar 17 milljarða hagræðingu á næsta ári

Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ráðist verður í hagræðingaraðgerðir sem eiga að spara 17 milljarða á næsta ári og 10 milljarða til frambúðar. Þetta kom fram í máli Sigurðar Inga Jóhannssonar fjármálaráðherra þegar hann kynnti nýja fjármálaáætlun í morgun fyrir árin 2025 til 2029.

Meðal þeirra verkefna sem á að fresta fram yfir árið 2029 er viðbygging Stjórnarráðsins og bygging húss viðbragðsaðila sem áformað er á Kleppsreitnum. Verður því ekki farið í þessar framkvæmdir fyrr en í fyrsta lagi árið 2030.

Auk þess segir Sigurður að eftirlit með styrkjum til nýsköpunarfyrirtækja verði aukið, skilyrði þrengd vegna kvikmyndastuðnings og hagrætt í almennum rekstri ríkisins, meðal annars með stafrænni væðingu.

Hallalaus rekstur árið 2028

Samkvæmt áætluninni verður 49 milljarða halli á ríkissjóði á þessu ári samanborið við 45 milljarða halla í fyrra. Hins vegar er gert ráð fyrir að hallareksturinn lækki nokkuð hratt og verði kominn réttu megin við núllið árið 2028.

„Við munum síðan strax á næsta ári sjá að hallinn helmingast, fer úr 49 ma 2024 niður í 25 milljarða árið 2025. Þannig að þessar aðgerðir sýna okkur að við erum á réttri leið. Svo sjáum við þróun á tímabilinu miðað við hagspá sem liggur til grundvallar því að frumjöfnuður vex. Hann varð jákvæður á árinu 2023, töluvert fyrr en við höfðum vænst, en heildarjöfnuði verður svo náð í lok tímabils,“ segir Sigurður í samtali við mbl.is.

Aðgerðirnar nægjanlegar til að ná verðbólgu hratt niður

Verðbólga mælist enn 6,8% á Íslandi og seðlabankastjóri hefur meðal annars sagt að hann vilji sjá sem mest aðhald í fjárlögum til að ná böndum á verðbólguna. Þá sagði Sigurður sjálfur í kynningu sinni að eitt helsta markmiðið væri að ná niður verðbólgu og vöxtum. Sigurður segist telja þessar aðgerðir nægjanlegar til að ná því markmiði.

„Já ég tel það og það er mat okkar hér í ráðuneytinu að þetta sé mjög styðjandi við þá peningastefnu sem Seðlabankinn er með. Enda leggjum við höfuðáherslu á í þessari fjármálaáætlun að við styðjum við að hér fari verðbólga lækkandi sem og vaxtastig í landinu,“ segir Sigurður og bætir við:

„Við trúum því að með framlagningu þessarar fjármálaáætlunar munum við styðja og breyta þeim væntingum þannig að verðbólgan geti farið hraðar niður.“

Aukin útgjöld í öðrum flokkum

Á móti hagræðingaraðgerðum segir Sigurður að inni í áætluninni sé viðbótarbarnabótakjarapakki, vaxtastuðningur og viðbótarhúsnæðisbætur. Þá fari fjármunir í uppbyggingu hagkvæms húsnæðis, meðal annars með stofnframlögum.

Þá séu einnig aukin útgjöld vegna hækkunar á þaki fæðingarorlofsgreiðslna, hækkunar barnabóta og aukins stuðnings við leigjendur.

Frestun á endurskoðun örorkulífeyriskerfis

Endurskoðun á örorkulífeyriskerfinu hefur verið í vinnslu í nokkurn tíma og stendur til samkvæmt stjórnarsáttmálanum að klára það mál á kjörtímabilinu. Í fyrri fjárlagaáætlun var gert ráð fyrir að breytingarnar tækju gildi um næstu áramót, en Sigurður segir að það muni tefjast og nú sé ekki gert ráð fyrir því að breytingarnar taki gildi fyrr en 1. september 2025.

„Í núgildandi áætlun var gert ráð fyrir að kerfisbreytingin myndi eiga sér stað 1. janúar 2025, en hún verður 1. september 2025. Það er vegna þess að málið er enn til umfjöllunar á Alþingi og það þarf að hafa einhvern tíma til að koma því í framkvæmd,“ segir Sigurður.„Þetta er eitt af því sem er í stjórnarsáttmálanum og við náum að klára á kjörtímabilinu,“ bætir hann við.

Gera ráð fyrir 1,5 til 2,5% hagvexti

Samkvæmt fjármálaáætluninni er gert ráð fyrir að heildarútgjöld ríkissjóðs frá 2024 til 2029 muni aukast um rúmlega 20% á tímabilinu, en á sama tíma að útgjöldin lækki hlutfallslega miðað við landsframleiðslu, úr um 32% niður undir 30%. Sigurður segir hagvaxtarspá ráðuneytisins mjög hóflega, en hún er um 1,5% og fer upp í um 2,5% undir lok áætlunartímabilsins. Nefnir hann í því samhengi að hagvöxtur síðustu þriggja ára hafi verið samtals um 20%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka