Unglingaskáldsagan Hrím eftir Hildi Knútsdóttur og barnabókin Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga sem Sólrún Ylfa Ingimarsdóttir myndlýsti eru tilnefndar til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir Íslands hönd.
Þetta var tilkynnt í Gunnarshúsi núna klukkan 10. Landsbundnar dómnefndir tilnefna í ár samtals 14 verk til verðlaunanna, en sameiginleg norræn dómnefnd velur vinningshafa ársins og verða verðlaunin afhent í beinni sjónvarpsútsendingu 22. október. Verðlaunahafinn hlýtur verðlaunagripinn Norðurljós og 300 þúsund danskar krónur eða rúmar sex milljónir íslenskra króna.
Tilnefndu bækur ársins eru:
Íslensku dómnefndina skipa Helga Ferdinandsdóttir, Markús Már Efraím og Halla Þórlaug Óskarsdóttir, sem er varamaður.
Í umsögn dómnefndar um Hrím sem Forlagið gefur út segir: „Hrím er ævintýraleg þroskasaga ungrar stúlku sem heyr erfiða lífsbaráttu í köldu og harðneskjulegu landslagi sem mannfólkið deilir með risadýrum. Hildur Knútsdóttir hefur skapað heilsteyptan en framandi
heim þar sem þekkt íslensk kennileiti eru leiktjöld og landslag sögunnar. Hildur teflir kunnuglegum örnefnum svæðisins á móti framandleikanum í ógnvekjandi risavöxnum dýrum sem ráða ríkjum í þessum heimi. Sum þessara dýra hefur enginn séð, heldur vekja ókennileg hljóð og aðrar vísbendingar hugmyndir um yfirvofandi hættu. Allt þetta skapar dulúð sem endurspeglar íslensk þjóðsagnaminni á mjög skapandi og hugmyndaríkan hátt.
„Sólarlagið roðaði skýjabólstra yfir Kinnarfjöllunum og í hylnum fyrir neðan þau spegluðust himinninn og heiðin. Jófríður lokaði augunum. Hún hlustaði á kvakið í fuglunum, sem voru í óðaönn að búa sig undir nóttina, og á strengi árinnar. Svona hljómaði engin önnur á. Laxá hafði hrifsað til sín systur hennar en samt þótti Jófríði hún falleg. Þar sem var mikið líf var líka mikill dauði. Eitt fylgdi óhjákvæmilega öðru.“
Unglingsstúlkan Jófríður ferðast um veiðilendur með skaranum sínum sem hagar lífi sínu í takt við náttúruna og árstíðirnar og lifir af því sem hópurinn getur safnað eða veitt. Veiðiferðirnar sýna skýrt hvað manneskjurnar eru máttlitlar í heimi risavaxinna dýranna – til dæmis þegar stór hópur fólks þarf að sameina krafta sína til að draga einn selkóp á land. Með því að stilla mannkyninu upp svo smáu og án yfirburða tæknilegs valds vekur höfundurinn upp spurningar um náttúruvernd og gildi þess að lifa í takt við náttúruna.
Frásögnin er þó fyrst og fremst saga unglingsstúlku. Lesandinn getur auðveldlega speglað sig í áhugamálum Jófríðar, eins og perlusaumuðum fatnaði úr kópaskinni eða snúnum ástamálum þar sem hún þarf að velja milli Suðra, myndarlega stráksins í Ljósavatnsskaranum, og æskuvinar síns, Bresa. Líf Jófríðar umturnast hins vegar þegar henni er gert að taka á sig þunga ábyrgð á velferð og framtíð alls skarans. Hún leggur ein af stað í leiðangur þar sem hún hefur aðeins á sjálfa sig að treysta og verður að finna sína eigin
leið til að tryggja velferð fólksins síns. Sagan er hröð og spennandi og baráttan við náttúruna drífur söguna áfram, en það eru ekki síður innri átök Jófríðar sem eru í brennidepli. Persónusköpunin er sterk, sérstaklega í lýsingunni á Jófríði og baráttu hennar við sjálfa sig, en aukapersónurnar eru einnig marglaga og áhugaverðar.
Hrím er mikilvæg saga sem sýnir á kröftugan og spennandi hátt viðkvæmt samband manneskjunnar við náttúruna og talar þannig fyrir sjónarmiðum umhverfisverndar. Hrím er ákall til ungra lesenda og okkar allra að taka málstað náttúrunnar.“
Í kynningu dómnefndar um Hildi segir að hún sé „fjölhæfur og afkastamikill höfundur sem skrifar bæði fyrir börn og fullorðna og velur sér sögusvið jöfnum höndum úr hversdeginum og heimi fantasíunnar. Hildur hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir bækur sínar, m.a. Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2016 fyrir ungmennabókina Vetrarhörkur. Hrím hlaut verðlaun bóksala 2023 og var tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna sama ár.
Í rökstuðningi dómefndar um Skrímslavinafélagið segir: „Skrímslavinafélagið segir frá Stefaníu og Pétri sem leika sér daglega við skítalækinn á skólalóðinni og safna hugrökkum vatnabobbum sem leynast inn á milli ryðgaðra innkaupakerra. Við kynnumst líka Jóhanni Steini, sem er nýbyrjaður í bekknum hennar Stefaníu. Það kemur fljótt í ljós að Pétur er alls ekki spenntur fyrir þessum nýja skólafélaga og finnst ekki pláss fyrir fleiri en tvo í leynifélaginu þeirra Stefaníu.
Í Skrímslavinafélaginu er fjallað um hversdagslegt mótlæti frá sjónarhóli ungra lesenda í einfaldri en vandaðri frásögn sem er skrifuð af virðingu fyrir börnum. Áherslan er ekki á móralskan boðskap heldur felst styrkur bókarinnar í því hvernig hversdagslegt líf og ævintýrahugsun blandast saman. Höfundarnir hafa einstakt lag á að draga fram allt hið smávægilega en samt stórkostlega sem einkennir æskuna.
Stefanía og Pétur taka sýni af dularfullu svörtu dufti sem veggurinn í skólanum þeirra framleiðir og sýna hverfisnorninni. Hér er sjónarhorn barnsins styrkt enn frekar. Nornin er eldri kona í hverfinu sem er aðeins á skjön við hið hefðbundna, en það er ekkert til að fjölyrða um. Fullorðinn lesandi áttar sig á því hvaða efni börnin hafa fundið. Mygla í skólahúsnæði er algengt vandamál og jafnvel hálfgert samfélagsmein á Íslandi. En það sem er alvörumál í augum hinna fullorðnu verður krökkunum efni í magnað ævintýri.
Persónusköpun bókarinnar er einstaklega skemmtileg og sýnir sig best í glímu vinanna við ytri aðstæður. Stefanía er forvitin, djörf og drífandi, en Pétur er var um sig og tekur engar óþarfa áhættur, hvorki gagnvart fólki né náttúru. Stefanía er sterk fyrirmynd. Hún stríðir ekki, hún er fjörug og skemmtileg en segir vini sínum líka til. Pétur hefur hins vegar tilhneigingu til óöryggis. Dýnamíkin milli persónanna hjálpar ungum lesendum að þróa með sér siðferðislegan áttavita, án þess að honum sé beinlínis þröngvað upp á þau.
Myndir Sólrúnar Ylfu eru litríkar og lifandi, fullar af húmor og litlum skemmtilegum andartökum sem auka aðdráttarafl bókarinnar. Stíllinn er markviss og myndirnar kallast á við texta bókarinnar í einfaldleika sínum og fjölmörgum smáatriðum sem í þeim leynast.
Bókin tekur á vináttu, flækjunum þegar tvíeyki verður að þríeyki, því að verða útundan eða fá að vera með. Hún býður upp á spjall um ákvarðanir í daglegu lífi barna, hverjar séu afleiðingar fyrir þau sjálf og aðra og hvernig hægt sé að taka ábyrgð á gjörðum sínum. Umfjöllunarefnið er beintengt raunveruleika íslenskra barna, en vandamálin sem fjallað er um verða samt aldrei stærri en ævintýrið.“
Í kynningu dómnefndar á Tómasi og Sólrúnu segir: „Tómas Zoëga stundar doktorsnám við háskólann í Ósló jafnframt því að sinna ritstörfum. Fyrir barnabókina Vetrargestir hlaut hann Íslensku hljóðbókaverðlaunin í flokki barna- og ungmennabóka árið 2020.
Sólrún Ylfa Ingimarsdóttir er fiðluleikari, myndskreytir og hreyfimyndasmiður. Hún hefur
myndskreytt barnabækur og gert stop motion stuttmyndir. Sólrún stundar fiðlunám við Konunglega danska tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn. Tómas og Sólrún Ylfa unnu samkeppni Borgarbókasafnsins og Bókmenntaborgarinnar um jóladagatal ársins 2020 með sögunni Nornin í eldhúsinu.“
Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs eru yngstu verðlaun ráðsins, en þau voru fyrst veitt árið 2013 með það að markmiði að vekja athygli á norrænum barna- og unglingabókum.
Verðlaunin eru veitt fagurbókmenntaverki fyrir börn og unglinga sem skrifað er á norrænu tungumáli. Verkið getur sameinað myndir og texta og á að standast háar bókmenntalegar og listrænar kröfur.
Norðurlandaráð veitir á hverju ári fimm verðlaun og eru þau auk barna- og unglingabókmennta á sviði bókmennta, kvikmynda, tónlistar og umhverfismála. Allar nánari upplýsingar um verðlaunin má nálgast á vefnum norden.org en þar má m.a. lesa umsagnir dómnefnda.
Þess má geta að allar tilnefndar bækur ársins eru aðgengilegar á frummálunum á bókasafni Norræna hússins. Þar má einnig nálgast allar vinningsbækur frá upphafi. Skrifstofa hvorra tveggja bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs hefur verið til húsa í Norræna húsinu frá 2014.