Íslenska ríkið dæmt brotlegt

Magnús Davíð Norðdahl og Guðmundur Gunnarsson.
Magnús Davíð Norðdahl og Guðmundur Gunnarsson. Samsett mynd

Íslenska ríkið braut gegn rétti borgara til frjálsra kosninga sem og gegn meginreglu um skilvirk réttarúrræði í kosningunum til Alþingis árið 2021.

Þetta er niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu en dómurinn var kveðinn upp í morgun.

Að mati dómsins var kjörbréfanefndin hlutlæg og sanngjörn í sinni athugun en afgreiðsla alþingismanna var talin pólitísk þar sem þeim var fengið vald til að ráða örlögum sínum sjálfir.

Málið á rætur sínar í alþingiskosningum árið 2021, en þar voru þeir Guðmundur Gunnarsson og Magnús Davíð Norðdahl báðir frambjóðendur í Norðvesturkjördæmi. Guðmundur var frambjóðandi Viðreisnar og Magnús frambjóðandi Pírata.

Þeir kærðu framkvæmd kosninganna eftir að seinni talning atkvæða í Norðvesturkjördæmi var látin standa.

Lokatölur voru birtar að morgni sunnudagsins eftir kosningar, en eftir endurtalningu í Norðvesturkjördæmi á sunnudaginn urðu talsverðar sviptingar á úthlutun jöfnunarmanna, sem varð meðal annars til þess að Guðmundur datt út.

Dómstóllinn dæmdi í morgun þeim Guðmundi og Magnúsi í vil en í dómnum kemur fram að íslenska ríkið hafi brotið gegn 3. grein 1. viðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu um réttinn til frjálsra kosninga og gegn 13. gr. Mannréttindasáttmálans um réttinn til raunhæfs úrræðis til að leita réttar síns.

Alvarlegar athugasemdir en niðurstöður stóðu

Eftir kosningarnar voru gerðar alvarlegar athugasemdir við talningu atkvæða og vörslu kjörgagna í Borgarnesi fyrir Norðvesturkjördæmi. Gagnrýndu þeir meðal annars að kjörgögn hafi aðeins verið læst í salnum á milli talninga, en að salurinn hafi ekki verið innsiglaður, líkt og gert hafði verið í öðrum kjördæmum.

Var málið bæði kært til lögreglu og kjörbréfanefndar Alþingis. Lögreglan vísaði málinu að lokum frá, en niðurstaða undirbúningskjörbréfanefndar var að þrátt fyrir talsverða ágalla væri ekkert sem benti til að þetta hefði haft áhrif á úrslit kosninganna. Því skyldu úrslitin standa.

Alþingi samþykkti að lokum kjörbréf allra þingmanna með 42 at­kvæðum gegn fimm en 16 greiddu ekki at­kvæði.

„Taka ákv­arðanir og úr­sk­urða um sjálfa sig“

Hafa þeir Guðmundur og Magnús gagnrýnt að sami aðili og hafi hag af óbreyttum niðurstöðum kosninga taki ákvörðun um að samþykkja kjörbréfin.

„Ég held að það sé mik­il­vægt að fá ut­anaðkom­andi niður­stöðu í þetta mál þannig að það sé lagt mat á hvaða raun­veru­legu þýðingu það hef­ur þegar að Alþingi legg­ur bless­un sína yfir hrein og klár lög­brot í jafn mik­il­vægu ferli og kosn­ing­ar eru,“ sagði Guðmundur við mbl.is í nóvember 2021.

„Þeir eru að taka ákv­arðanir og úr­sk­urða um sjálfa sig. Þetta er löngu þekkt­ur galli sem við höf­um vitað af lengi en höf­um ekki gert neitt í til að laga. Það var vitað að á ein­hverj­um tíma­punkti myndi þessi tímasprengja springa í and­litið á okk­ur,“ sagði Guðmundur jafnframt í viðtalinu.

— — —

Fréttin hefur verið leiðrétt. Magnús D. Norðdahl féll ekki af þingi við endurtalningu, hann náði aldrei kjöri. Hann kærði framkvæmdina sem oddviti flokks síns á framboðslista.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka