Jón Gnarr: Framboð Katrínar „steikt og absúrd“

Jón Gnarr gagnrýnir framboð Katrínar.
Jón Gnarr gagnrýnir framboð Katrínar. Samsett mynd

Jón Gnarr forsetaframbjóðandi segir að framboð Katrínar Jakobsdóttur til forseta sé mjög gagnrýnisvert og skrýtið. Hann segir Katrínu bera ábyrgð á því að Bjarni Benediktsson sé orðinn forsætisráðherra Íslands.

Þetta kemur fram í broti úr þætti hlaðvarpsins Ein Pæling, sem Þórarinn Hjartarson stýrir, en þátturinn hefur ekki verið gefinn út.

„Samt er mjög margt í þessu sem mér finnst málefnalega gagnrýnivert og þá í því tilfelli. Það er eitthvað svona sem ég hugsa mikið um – sem ég get ekki annað en verið gagnrýninn á, og það er til dæmis bara allt framboð Katrínar Jakobsdóttur sem mér finnst mjög skrýtið í alla staði,“ segir Jón.

„Ég reyni að vera málefnalegur og ég reyni að vera kurteis – ég vil alls ekki vera ruddalegur eða dæmandi – en mér finnst þetta bara skrýtið.“

Býr til sérkennilega hugmynd

Þórarinn spyr þá Jón að hvaða leyti hann telji þetta skrýtið og þá nefnir Jón að framboðið sé sögulegt.

Hann segir Katrínu greinilega búin að vera hugsa þetta í langan tíma en þegar hún hafi verið spurð um mögulegt framboð á Alþingi þá hafi hún ekki sagst hafa leitt hugann að því.

„Síðan stígur hún fram og fær þessa gríðarlega miklu athygli – ég meina þetta er bara sögulegt – og er komin á Bessastaði. Það er fyrsta skrefið hennar áður en hún fer í framboð til embættis á Bessastöðum, að fara á Bessastaði. Þetta býr til mjög sérkennilega hugmynd í höfðinu á manni.“

Katrín beri ábyrgð á því að Bjarni sé forsætisráðherra

„Síðan tekur við einhver svona pólitískt möndl – eða eitthvað – sem verður til þess að Bjarni Benediktsson er orðinn forsætisráðherra. Mér finnst mjög mikilvægt að við horfumst í augu við það að hún Katrín Jakobsdóttir ber ábyrgð á því að Bjarni Benediktsson situr í stóli forsætisráðherra.

Og hún getur ekki verið stikk frá því og sagt: „Já, þetta er nú bara eitthvað sem var ákveðið eftir að ég fór.“ Nei, það er bara ekki rétt, þú berð ábyrgð á þessu og þú þarft að taka hana,“ segir Jón.

Hann segir fólkið í landinu þurfa að horfast í augu við það að ný ríkisstjórn sé á ábyrgð Katrínar.

„Mér finnst mjög mikilvægt að benda á þetta og án þess að ég sé að reyna að vera leiðinlegur. Þetta er bara svo steikt og absúrd að það verður að tala um þetta.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert