Segir stöðuna sterka þrátt fyrir aukin útgjöld

Sigurður Ingi Jóhannsson fjármála- og efnahagsráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigurður Ingi Jóhannsson, nýr fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti í morgun nýja fjármálaáætlun fyrir árin 2025-2029. 

Lögð verður áhersla á að verja sterka stöðu með hóflegum vexti útgjalda til að stuðla að lækkun verðbólgu og skapa skilyrði fyrir lækkun vaxta, að því er fram kom í máli Sigurðar.

Staðan á Íslandi sterk

Við upphaf fundar fór Sigurður Ingi yfir stöðuna í efnahagsmálum og sagði hann stöðuna á Íslandi vera sterka. 

„Auðvitað hefur verðbólgan sett að einhverju leiti strik í reikninginn hjá einstaka hópum, jafnvel þó kaupmáttur hér á landi hefur ekki minnkað,“ segir Sigurður Ingi. 

Þá segir hann að verkefni ríkistjórnarinnar sé að styðja við lækkun verðbólgu svo að kaupmáttur geti vaxið áfram eins og spár gera ráð fyrir. 

„Þó heimilin finni sannarlega fyrir vaxtahækkunum og verðbólgu þá eru þau miklu betur í stakk búin að standast þá raun, enda höfum við ekki séð neina verulega aukningu í vanskilum á lánum.“

Aðgerðir stjórnvalda skilað árangri 

Sigurður Ingi segir aðgerðir stjórnvalda hafa sannarlega skilað árangri. Verðbólgan hefur lækkað um meira en þrjú prósentustig undanfarna mánuði og spár gera ráð fyrir því að hún haldi áfram að lækka. 

„Þetta er ekki tilviljun heldur hafa ákvarðanir Seðlabankans og stjórnvalda undanfarin misseri stuðlað að lækkun verðbólgunnar.“

Þakka megi ákvörðunum peningastefnunefndar Seðlabankans og ábyrgum ákvörðunum í  ríkisfjármálum, þar sem dregið hefur verið úr þeim halla sem myndaðist í heimsfaraldrinum. 

Helstu áhrifaþættir á breytingu á afkomu ríkissjóðs milli áranna 2023 …
Helstu áhrifaþættir á breytingu á afkomu ríkissjóðs milli áranna 2023 og 2024 samkvæmt spánni. Gert er ráð fyrir 49 milljarða halla á næsta ári, en að hallinn lækki svo á næstu árum. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Ríkissjóður stöðugur milli ára

Þótt jarðhræringarnar í Grindavík og aðkoma ríkissjóðs að kjarasamningum hafi kallað á nokkuð umfangsmikil bein útgjöld úr ríkissjóði helst afkoma ríkissjóðs stöðug milli ára.

Gert er ráð fyrir að afkoman batni áfram á næstu árum og að afgangur verði á ríkissjóði 2028.

Á tímabili áætlunarinnar verður farið hægar í ný útgjöld eða þeim mætt með aðhaldi í öðrum rekstri með því að vinna að markvissum umbótum í ríkisrekstri.

Samkvæmt fjármálaáætlun 2025-2029 er gert ráð fyrir að afkoma ríkissjóðs …
Samkvæmt fjármálaáætlun 2025-2029 er gert ráð fyrir að afkoma ríkissjóðs verði orðin jákvæð árið 2028. Graf/Stjórnarráðið

Ráðist verður í ýmsar aðgerðir til að draga úr útgjaldavexti á næsta ári. Þar má nefna hliðrun eða niðurfellingu verkefna, endurskoðun á forsendum fjárveitinga, kerfisbreytingar og hagræðingar í rekstri.

Munu þessar aðgerðir skila varanlegri útgjaldalækkun um 10 milljarða.

Sigurður Ingi segir einnig umtalsverð tækifæri til að selja eignir. Ríkið á yfir 40 fyrirtæki sem eru með bókfært eigið fé yfir 1.000 milljörðum. Einnig á ríkið 900 fasteignir og um 400 jarðir. Bókfært virði þeirra eigna er um 312 milljarða króna. 

Þá mun ríkið fara í ýmsar fjárfestingar samhliða útgjaldalækkunum og nefndi Sigurður Ingi meðal annars þjóðarhöll, byggingu nýs Landspítala og nýtt fangelsi í stað Litla-Hrauns. Þá verður einnig farið í framkvæmdir á vegakerfinu.

Þá er vinna hafin við nýtt framtíðartekjuöflunarkerfi vegna umferðar og orkuskipta. Samkvæmt því verður kílómetragjald lagt á alla bíla, þar með talið bensín og dísilbíla, frá og með 2025.

Heilbrigðismál áfram í forgangi

Útgjöld til heilbrigðismála og félags- og tryggingamála vega áfram þyngst á tímabili þessarar fjármálaáætlunar en um helmingi heildarútgjalda ríkissjóðs er varið til þeirra málaflokka.

Ekki er almenn aðhaldskrafa á heilbrigðis- og velferðarmál og verður áfram forgangsraðað til þeirra málaflokka en útgjöld verða þar aukin um 80 milljarða króna milli 2024 og 2029 sem svarar til tæplega 12% aukningar að raunvirði.

Fjármálaáætlun 2025-2029

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert