Vorum kannski ekki bara „hrópandi í eyðimörkinni“

Guðmundur Gunnarsson var frambjóðandi Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi.
Guðmundur Gunnarsson var frambjóðandi Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi. Ljósmynd/Aðsend

Guðmundur Gunnarsson, fyrrverandi frambjóðandi Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi, segir mikinn létti að hafa loks fengið niðurstöðu í máli sínu gegn íslenska ríkinu fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu.

Hann segir málið fyrst og fremst hafa snúist um „prinsippið“ – að ekki væri hægt að láta það óátalið hvernig framkvæmd kosninganna hefði verið háttað.

„Það er ágætt að fá loksins niðurstöðu, kannski vorum við ekki bara hrópandi í eyðimörkinni að halda því fram að það hefði ekki staðið steinn yfir steini í framkvæmd þessara kosninga og hvernig var greitt úr því,“ segir Guðmundur.

Braut gegn rétti borgara til frjálsra kosninga

Dómur féll í máli Guðmundar og Magnúsar Davíðs Norðdahl, sem báðir voru frambjóðendur í Norðvesturkjördæmi í síðustu alþingiskosningum, í Mannréttindadómstóli Evrópu í morgun.

Var íslenska ríkið dæmt brotlegt gegn rétti borg­ara til frjálsra kosn­inga sem og gegn meg­in­reglu um skil­virk réttar­úr­ræði í kosn­ing­un­um til Alþing­is árið 2021.

Málið á ræt­ur sín­ar í alþing­is­kosn­ing­um árið 2021. Ágallar voru á talningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi og eins og frægt er féllu nokkrir af þingi eftir að atkvæði voru talin aftur, Guðmundur þar á meðal. 

Seinni talning atkvæða var látin standa eftir að meirihluti þingmanna greiddi atkvæði því í vil.

Að mati Mannréttindadómstólsins gátu þingmenn ekki verið „pólitískt hlutlausir“ í ákvörðunartöku um kosninguna.

Enn að lesa í gegnum dóminn

Spurður hvort hann íhugi skaðabótakröfu segist Guðmundur hreinlega ekki vera kominn svo langt. Var hann enn að lesa í gegnum dóminn þegar blaðamaður sló á þráðinn.

Hann kveðst þó vona að viðbrögð ríkisins við dómnum verði ekki „af sömu léttúð“ og þegar málið kom fyrst upp.

„Þetta er sigur fyrir okkur öll, þarna er brotið á okkar rétti til frjálsra kosninga. Það er risastórt. Þarna er verið að draga fram í dagsljósið þessa alvarlegu ágalla á lýðræðiskerfinu okkar – að þingmenn séu í þeirri stöðu að taka afstöðu til þess hvort þeir séu réttkjörnir eða ekki, burtséð frá ágöllum í framkvæmd sem öllum voru ljósir,“ segir Guðmundur og heldur áfram:

„Ég held að þeir sem með valdið fara – ef þeir eru ekki aðeins hugsi yfir því eftir svona áfellisdóm, þá held ég að það hljóti að teljast svolítið skrítið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka